149. löggjafarþing — 44. fundur,  10. des. 2018.

samkomulag Sameinuðu þjóðanna um flóttamenn og farendur.

[15:27]
Horfa

Jón Þór Þorvaldsson (M):

Hæstv. forseti. Ég stóð í ræðustól í síðustu viku undir dagskrárliðnum störf þingsins og vakti máls á samþykkt Sameinuðu þjóðanna Global Conduct for Safe, Orderly and Regular Migration.

Tilgangur ræðu minnar var að vekja umræðu um viðkvæmt mál, umræðu sem þarf að taka. Ráðstefnan stendur yfir í dag og á morgun í Marrakess í Marokkó og fulltrúar Íslands, m.a. Ragnhildur Arnljótsdóttur, ráðuneytisstjóri forsætisráðuneytis, eru þar til að samþykkja fyrir Íslands hönd. Reynslan í öðrum löndum kennir okkur að ef umræðan er ekki tekin er hættan sú að umræðan lendi í höndum fólks sem aðhyllist öfgastefnur, sem oftar en ekki eru byggðar á fordómum. Á þeim vettvangi verður hún ljót og skilar engu góðu.

Ég er ekki tilbúinn að sleppa umræðunni þangað. Íslenska þjóðin er smá og má ekki við slíku. Mikilvægt er að vel takist til. Við fögnum 100 ára fullveldisafmæli og eining, sérkenni og sjálfstæði þjóðarinnar er dýrmætt. Við þurfum að standa vörð um grunngildi samfélags okkar sem byggir m.a. á frelsi og mannvirðingu. Málið varðar alla þjóðina og flestar þjóðir hafa séð ástæðu til að setja málið á dagskrá. Samþykktin er hápólitísk og hefur valdið klofningi, til að mynda í ríkisstjórn Belgíu.

Sumar Evrópuþjóðir setja fyrirvara og aðrar fresta ákvörðun um samþykki þar til efni samþykktarinnar er útrætt. Ljóst er að kostnaður við þátttöku í slíkum verkefnum getur verið ærinn og þolmörk velferðarkerfisins geta verið reynd.

Ég hef tvær spurningar til hæstv. forsætisráðherra. Hvaða umræðu hefur málið fengið og á hvaða vettvangi?

Í öðru lagi: Hvaða fyrirvarar eru gerðir við samkomulagið fyrir Íslands hönd og á hvaða forsendum eru þeir fyrirvarar gerðir?