149. löggjafarþing — 44. fundur,  10. des. 2018.

endurskoðun laga vegna úthlutunar veiðiheimilda í makríl.

[15:35]
Horfa

Þorsteinn Víglundsson (V):

Frú forseti. Í nýliðinni viku féll dómur í Hæstarétti þess efnis að fyrirkomulag úthlutunar veiðiheimilda á makríl sem stuðst hafði verið við á árunum 2011–2014 stæðist ekki gildandi lög um stjórn fiskveiða eða lög um fiskveiðar utan lögsögu Íslands.

Það er ljóst að ekki er aðeins um gríðarlega fjárhagslega hagsmuni að ræða sem skipta milljörðum ef ekki tugum milljarða króna, heldur er einnig ljóst að dómurinn snertir ýmis grundvallaratriði í fiskveiðistjórn og það fyrirkomulag sem viðhaft hefur verið á undanförnum árum. Verður ekki annað ráðið af dómsorði en að stjórnvöldum séu verulegar skorður settar um úthlutun veiðiheimilda, jafnvel þegar um takmarkaða veiðireynslu á nýjum tegundum innan lögsögunnar er að ræða. Dómurinn vekur því eðlilega upp ýmsar spurningar um hvar raunverulegt forræði á þessari sameiginlegu auðlind þjóðarinnar liggur.

Hæstv. sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra hefur lýst því yfir að hann telji endurskoðun laga óhjákvæmilega í kjölfar þessa dóms. Ljóst sé að fyrirkomulag veiðistjórnar hafi verið ólögmætt. Óljóst er hins vegar hvort það fyrirkomulag sem viðhaft hefur verið á síðari árum stangist einnig á við lög eða ekki. Í ljósi þess hversu mikilsverða hagsmuni hér er um að ræða langar mig að spyrja hæstv. sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra eftirtalinna spurninga:

Hyggst hæstv. ráðherra viðhafa þverpólitískt samráð við endurskoðun laga og reglugerða vegna þessa máls?

Telur ráðherra að núverandi fyrirkomulag úthlutunar stangist einnig á við ákvæði laga um fiskveiðistjórn? Dómurinn nær aðeins til úthlutunar og þess fyrirkomulags sem viðhaft var á árunum 2011–2014.

Komi til endurskoðunar á fyrirkomulagi fiskveiðistjórnar varðandi makríl, hvernig telur ráðherra að horfa eigi til veiðireynslu áranna eftir árið 2011?