149. löggjafarþing — 44. fundur,  10. des. 2018.

endurskoðun laga vegna úthlutunar veiðiheimilda í makríl.

[15:37]
Horfa

sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra (Kristján Þór Júlíusson) (S):

Virðulegi forseti. Ég þakka fyrirspurnina. Fyrst kom fram frá hv. þingmanni að hann teldi að í raun væri búið að draga verulega í efa forræði þjóðarinnar yfir veiðiréttindunum. Ég vil í því sambandi vitna enn og aftur til gildandi laga sem segja að nytjastofnar á Íslandsmiðum séu sameign íslensku þjóðarinnar og að úthlutun veiðiheimilda myndi hvorki eignarrétt né eitthvert óafturkallanlegt forræði. Þetta stendur í lögum og á grundvelli laga úthlutar Alþingi heimildum til ráðherra um ráðstöfun þeirra réttinda. Dómur Hæstaréttar núna fjallaði ekki um neitt annað en það að úthlutun sjávarútvegsráðherra fyrir árið 2011 stóðst ekki þá löggjöf sem Alþingi hafði sett. Það er ekkert flóknara en það að ráðherra fór ekki að lögum og þá þurfum við að taka til þess.

Þær spurningar sem hv. þingmaður setur hér fram eru eðli málsins samkvæmt þær sem við þurfum að takast á við á komandi vikum. Það er alveg augljóst og það er verkefni sem bíður okkar. Ég vek athygli á því að þessi dómur féll á fimmtudaginn. Þetta er framkvæmd sem hefur verið stunduð frá árinu 2011. Það er flókið úrlausnarefni að koma einhverju lagi á veiðistjórnina í makríl. Við þurfum fyrst af öllu að fara yfir málið með ríkislögmanni, yfir forsendur dómsins, og það hyggjumst við gera, ef ég man rétt, á morgun. Í framhaldi af því mun ég leggja niður eitthvert verklag, með hvaða hætti við tökumst á við þetta verkefni, en númer eitt, tvö og þrjú tel ég vera að við þurfum að fá lögfræðilega ráðgjöf okkar fremsta fólks á sviði skaðabótaréttar, eignarréttar, þegar við förum að skoða þær leiðir sem mögulega eru fyrir stjórnvöld til að vinda ofan af því verklagi sem Hæstiréttur hefur nú dæmt ólöglegt.