149. löggjafarþing — 44. fundur,  10. des. 2018.

endurskoðun laga vegna úthlutunar veiðiheimilda í makríl.

[15:41]
Horfa

sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra (Kristján Þór Júlíusson) (S):

Virðulegi forseti. Það er víða farið í ræðu hv. þingmanns. Ég bið hv. þingmann bara að halda ró sinni. Það er víða farið hjá hv. þingmanni og þegar hann kallar það fyrirkomulag sem viðhaft er um úthlutun makrílveiðiheimilda frumbyggjafyrirkomulag þá vek ég athygli hv. þingmanns á því að það fyrirkomulag sem Hæstiréttur dæmir og kemst að niðurstöðu um á fimmtudeginum var sett í tíð þáverandi sjávarútvegsráðherra, Þorsteins Pálssonar, sem ég vænti að sé hv. fyrirspyrjanda að góðu einu kunnur.

Því fyrirkomulagi var komið á í samráði allra þingflokka, í greininni allri. Það er það fyrirkomulag, sem var sett á í miklu samráði undir forystu þessa hæfa stjórnmálamanns, sem hv. þingmaður telur frumbyggjafyrirkomulag. Umræðan um fiskveiðistjórnina getur aldrei byggst á svona fullyrðingum. Þetta er vandað regluverk sem ráðherra virti ekki og við þurfum að grípa til einhverra ráðstafana í kjölfarið á því.