149. löggjafarþing — 44. fundur,  10. des. 2018.

vöktun á súrnun sjávar.

[15:45]
Horfa

sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra (Kristján Þór Júlíusson) (S):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrirspurnina. Það er rétt sem kemur fram í máli hans að Hafrannsóknastofnun hefur núna á fjórða áratug stundað rannsóknir í Norður-Atlantshafi á ólífrænu kolefni í sjó og þar af leiðandi súrnun sjávar. Þetta eru sennilega einar lengstu samfelldu mælingar sem við fyrirfinnum í veröldinni á því fyrirbæri, þannig að Hafrannsóknastofnunin okkar hefur vaktað þetta mál á allan hátt mætavel. Ég sé það og veit til þess að hún er í öflugu samstarfi við bæði háskóla sem standa framarlega á því sviði austan hafs og vestan og sömuleiðis alþjóðlegar stofnanir í þeim efnum. Eins og hv. fyrirspyrjandi nefnir er margvísleg alþjóðleg samvinna í gangi.

Það er aðkallandi, eins og hv. fyrirspyrjandi nefnir, að auka rannsóknir og m.a. af þeim sökum og af því leiddi að þetta ákvæði var tekið inn í stjórnarsáttmála ríkisstjórnar Katrínar Jakobsdóttur þar sem kveðið er á um að efla rannsóknir á því sviði og þá í tengslum við vísindasamfélagið og sjávarútveg. Meðal annars í því skyni hefur Hafrannsóknastofnun verið að reyna að víkka út sambönd sín og efna til frekara samstarfs en orðið er. Í því sambandi vil ég nefna stofnun í Bandaríkjunum sem heitir Woods Hole sem Hafrannsóknastofnun er komin í samband við og ég veit í rauninni ekki á þessu stigi hvað út úr því kann að koma. Vissulega þurfum við, eins og hv. þingmaður nefnir, að standa okkur vel í því áfram að gæta að þeim breytingum sem við erum farin að sjá í hafinu í kringum Ísland og lykilstofnun okkar þar er Hafrannsóknastofnun. (Forseti hringir.)

Ég kem kannski að því að hverju við ættum að horfa frekar í síðara andsvari.