149. löggjafarþing — 44. fundur,  10. des. 2018.

vöktun á súrnun sjávar.

[15:48]
Horfa

sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra (Kristján Þór Júlíusson) (S):

Virðulegi forseti. Ég tek undir þau orð sem hv. þingmaður hefur hér um nauðsyn þess að gera þessa úttekt. Það kann vel að vera að það séu mismunandi leiðir til að standa að henni. Ég skal vera fyrstur manna til að ljá máls á því að efna til umræðu um með hvaða hætti við getum best gert þetta. Ekki er ég sérfræðingur á þessu sviði og reiði mig á ráðgjöf og þekkingu Hafrannsóknastofnunar og vísindasamfélagsins.

Það er sjálfsagt mál að taka þetta upp því að þarna eru á ferðinni greinilega mjög miklar breytingar sem virðast ætla að ganga fram með meiri hraða en menn ætluðu hér fyrir tiltölulega fáum árum.

Ég vil þó nefna að verið er að vinna að ýmsum þáttum og hefur verið unnið og lagt í mjög mikla vinnu sem getur nýst okkur í þessum efnum sem snýr t.d. að skýrslu vísindanefndar um loftslagsbreytingarnar, sem ég vænti að hv. þingmaður þekki. Ég er opinn fyrir öllum möguleikum á því að taka þetta mál lengra og fagna því að geta átt samstarf við hv. þingmann um framhaldið.