149. löggjafarþing — 44. fundur,  10. des. 2018.

símenntun og fullorðinsfræðsla.

352. mál
[16:33]
Horfa

mennta- og menningarmálaráðherra (Lilja Alfreðsdóttir) (F):

Virðulegi forseti. Ég þakka kærlega fyrir þessa umræðu, hún er mjög brýn og gagnleg, m.a. vegna þess að brotthvarf af framhaldsskólastiginu er hærra á Íslandi en til að mynda á Norðurlöndunum og víðast hvar annars staðar. Þess vegna er þörfin á endurmenntun eða símenntunarmiðstöðvunum brýnni á Íslandi en ella. Að vísu höfum við verið að ná talsverðum árangri á síðustu árum, við erum að minnka brotthvarfið. Hv. þingmenn hafa nefnt raunfærnimatið. Við erum að taka það þarna inn sem skiptir miklu máli og allt gengur þetta auðvitað út á það að efla fólkið okkar á vinnumarkaðnum og hlúa að því að það nái sér í þekkingu sem skiptir máli og styrkir það.

Hv. þingmaður spurði út í útboðið. Útboðið er náttúrlega í samvinnu eða samræmi við lög um opinber fjármál, 42. gr. Við munum að sjálfsögðu vera í samvinnu við símenntunarmiðstöðvarnar og ef bæta þarf samvinnu eða auka upplýsingagjöf tekur ráðherrann sem hér stendur það til sín. Við munum bæta úr því og mun ég spyrjast fyrir um það í mínu ráðuneyti. Það sem er hins vegar brýnast er að símenntunarmiðstöðvar, og sú endurmenntun sem á sér stað þar, bjóði upp á öflugt nám til þess fallið að auka hæfni á íslenskum vinnumarkaði. Við þurfum líka að hafa það hugfast að það er brýnni þörf á þessari þjónustu á Íslandi vegna þess hvernig brotthvarf hefur verið að þróast hér á landi.