149. löggjafarþing — 44. fundur,  10. des. 2018.

námsgögn fyrir framhaldsskóla.

407. mál
[16:39]
Horfa

mennta- og menningarmálaráðherra (Lilja Alfreðsdóttir) (F):

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á að þakka hv. þm. Hönnu Katrínu Friðriksson fyrir að setja á dagskrá málefni framhaldsskóla landsins. Það er mjög ánægjulegt að vera hér í þingsal og ræða þessi mikilvægu mál af því að þetta snýr auðvitað að framþróun þjóðarinnar.

Ég ætla að byrja á að svara því er varðar brotthvarf og fjölbreytni í kennsluaðferðum, vil samt byrja á því að benda á að brotthvarfið hefur minnkað umtalsvert á síðustu tíu árum. Núna er hlutfallið það að 58% útskrifast á framhaldsskólastiginu á tilskildum tíma en fyrir tíu árum voru það í kringum 44%. Við sjáum því talsverðar framfarir.

Ég vil nefna það, virðulegur forseti, að ástæður brotthvarfs nemenda úr framhaldsskólanámi eru margþættar. Brotthvarf úr námi sem síðar birtist í framhaldsskóla er langt ferli og löngu hafið áður en nemandi hættir á framhaldsskólastiginu. Eitt af því sem við höfum verið að gera í mennta- og menningarmálaráðuneytinu er að leggja mun meiri áherslu á leikskólastigið og grunnskólastigið, jafnvel þótt við berum ekki fjárhagslega ábyrgð á þeim skólastigum, vegna þess að ljóst er að brotthvarfið hefst, og við sjáum fyrstu merki þess, mun fyrr.

Við höfum verið að efla samstarfið verulega við Samband íslenskra sveitarfélaga sem bera fjárhagslega ábyrgð á grunnskólastiginu og líka á leikskólastiginu til að finna leiðir. Hvernig getum við spornað gegn þessu?

Hins vegar er ljóst að framhaldsskólastigið sem slíkt og kennsluaðferðir í því eru mjög fjölbreyttar og ég verð að viðurkenna að þær eru mun fjölbreyttari en ég hafði gert mér grein fyrir áður en ég kynnti mér framhaldsskólastigið. Það er gríðarleg fjölbreytni hvað varðar námsframvindu og úrval, þ.e. námsframboð. Ég er ekki sannfærð um að helsta skýribreytan hvað varðar brotthvarf sé skortur á fjölbreytni í kennsluaðferðum. Hins vegar erum við erum að skoða það mjög gaumgæfilega í ráðuneytinu hverjar eru stærstu skýribreyturnar. Eitt af því sem við sjáum er að ef nemendur sýna litla færni í íslensku og stærðfræði á síðari stigum í grunnskóla þá aukast líkurnar verulega á brotthvarfi. Það eru því ákveðnar vísbendingar um að það megi efla menntun hvað það varðar.

Hins vegar held ég að það sem skipti miklu máli líka sé að við þurfum að auka val á grunnskólastiginu, þ.e. að viðmiðunarstundaskráin hvað varðar valið sé uppfyllt. Við erum að vinna með sveitarstjórnarstiginu hvernig við náum að uppfylla það vegna þess að ég held að þetta tengist líka því að nemendur átti sig ekki oft á hversu mikið val og námsframboð er í boði á framhaldsskólastiginu. Þarna þurfa allir að taka saman höndum, foreldrar, nemendur, stjórnendur á grunnskólastiginu og framhaldsskólastiginu til að nemendur séu meira meðvitaðir um það.

Spurt er hvort við séum að fara í ákveðnar aðgerðir til að tryggja fjölbreytni í framsetningu námsefnis. Við erum að vinna að stefnu um námsgögn á Íslandi og settur var á laggirnar starfshópur sem vinnur að því. Ég vil taka fram að ég hef mjög mikla trú á því að vönduð námsgögn séu ákveðin jöfnunartæki. Ef þau eru góð og unnið að þeim talsvert mikið þá hafa nemendur betri möguleika á að námsframvinda þeirra verði jafnvel betri og öflugri. Þannig að mér finnst þegar við ræðum námsgögn og ég tala nú ekki um þegar við ræðum svo aðalnámskrá seinna, geri ég ráð fyrir, að það sé svolítið kjarni þess að við séum með öflugt menntakerfi.

Ég vil segja við hv. þingmann að við höfum sett á laggirnar vinnuhóp sem er að vinna að þessu og þeirri endurskoðun á að ljúka á árinu 2019, en þar erum við að fara mjög gaumgæfilega yfir þessa þætti.

Hvað varðar þjóðtunguna og að námsefni skorti á íslensku erum að skoða það líka með Menntamálastofnun, mögulega að nýta tæknina hvað það varðar, þ.e. með máltækniverkefninu og fleiri leiðum. Þá er hægt, virðulegi forseti, að fá námsefni á íslensku með minni tilkostnaði en áður. Við verðum að nýta og skoða það gaumgæfilega.