149. löggjafarþing — 45. fundur,  10. des. 2018.

veiðigjald.

144. mál
[18:12]
Horfa

Þorsteinn Víglundsson (V) (andsvar):

Herra forseti. Hv. þingmanni verður tíðrætt um stöðu lítilla og meðalstórra útgerða í þessu samhengi og mikilvægi þess að hækka afslátt til smærri útgerðanna. Raunar er það áberandi í öllum rökstuðningi með þessu máli að ástæða þess að nauðsynlegt sé að ganga svona skarpt til verka, í miklum pólitískum ágreiningi hér í þingsal, sé mjög slæm afkoma greinarinnar.

Mig langar í fyrra andsvari við hv. þingmann að spyrja: Hvaða gögn hefur nefndin til grundvallar þegar kemur að slæmri stöðu lítilla og meðalstórra fyrirtækja, að verri afkoma þessara fyrirtækja sé með nokkrum hætti stærðartengd? Hér hefur verið staðhæft í þingsal, m.a. af hæstv. sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, að ráðuneyti hans hafi engin slík gögn eða greiningar undir höndum, að ekkert bendi til þess að til staðar sé stærðartengdur afkomuvandi í sjávarútvegi.

Hér stöndum við í þingsal með mál sem snýst öðru fremur um að veita þurfi smærri fyrirtækjum sérstakan afslátt af því að staða þeirra sé með einhverjum hætti miklu verri en staða annarra fyrirtækja. Ég auglýsi eftir slíkum gögnum því að ég hef ekki séð neinar greiningar í þessa veru.

Í málflutningi hér í þinginu, þegar hæstv. ráðherra mælti fyrir frumvarpinu sjálfu, virtist hann ekki heldur hafa slíkar upplýsingar undir höndum og raunar hefur verið staðhæft ítrekað, af sérfróðum aðilum, við mig að engan marktækan mun sé að finna á afkomu smærri fyrirtækja og stærri hvað þetta varðar. Vissulega sé verulegur breytileiki í afkomu fyrirtækja en hann sé ekki stærðartengdur.