149. löggjafarþing — 45. fundur,  10. des. 2018.

veiðigjald.

144. mál
[18:14]
Horfa

Frsm. meiri hluta atvinnuvn. (Lilja Rafney Magnúsdóttir) (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Það liggja fyrir skýrslur sem styðja við það að lítil og meðalstór fyrirtæki hafi ekki sömu afkomu. Ég kynnti hér áðan greiningu Deloitte á mismunandi afkomu fyrirtækja þar sem hagnaður hefur dregist mjög mikið saman. Fyrir liggur skýrsla sem landshlutasamtök á Vestfjörðum og Vesturlandi létu gera um afkomu fyrirtækja á þeim landsvæðum sem sýnir glögglega að afkoma þeirra er mjög erfið og rekstrarskilyrði slæm. Þessi gögn eru opinber og hægt að kynna sér þau.

Þetta kom einnig fram í umsögn Byggðastofnunar sem hefur puttann á púlsinum gagnvart þessum litlu og meðalstóru fyrirtækjum. Byggðastofnun er með sérstakan kvóta fyrir brothættar byggðir og þau sjávarpláss sem falla undir samninga um brothættar byggðir og sérstakan byggðakvóta. Það kemur skýrt fram, í umsögn hennar um veiðigjöldin, að afkomu- og rekstrarskilyrði þessara litlu og meðalstóru fyrirtækja séu mjög erfið og skeri sig úr.

Ég tel því að við höfum nægar upplýsingar til að byggja á og að mæta þurfi þessu sérstaklega. Ég er hér með úttekt á milli fiskveiðiára 2016/2017 og 2017/2018. Í Ísafjarðarbæ hefur veiðigjaldið t.d. hækkað á milli þessara ára um 265%, í Bolungarvík um 223%, í Vesturbyggð um 212%, í Tálknafjarðarhreppi um 136% og þannig mætti áfram telja. Þetta eru dæmigerðir staðir fyrir litlar og meðalstórar útgerðir.