149. löggjafarþing — 45. fundur,  10. des. 2018.

veiðigjald.

144. mál
[18:21]
Horfa

Logi Einarsson (Sf):

Herra forseti. Hér stöndum við og ræðum veiðigjöld við 3. umr. Ég ætla að freista þess að halda mér rólegri en ég gerði undir lok 2. umr. Ég fagna viðveru hæstv. sjávarútvegsráðherra hérna, það er mikilvægt að ráðherrar fylgi eftir málum sínum og fylgist með því sem fer fram.

Hv. þm. Lilja Rafney Magnúsdóttir sagði svona um það bil að ekki þyrfti að hafa mörg orð um málið. Það væri búið að ræða mikið innan þings og utan, búið að ná utan um það og að sátt ætti að vera um aðferðina. Þetta mál hefur verið deilumál þjóðarinnar í um 30 ár og ég held að þrátt fyrir góðan vilja ríkisstjórnarinnar sjáum við ekki endilega í land með það. Jafnvel þótt við getum tekið undir það með hv. þm. Lilju Rafneyju Magnúsdóttur að aðferðin, það að leitast við að innheimta gjöld miðað við rauntíma, sé ágæt hugmynd þá er ekkert rætt í frumvarpinu hvar sá þröskuldur eigi að vera. Það er í stuttu máli einfaldlega tekið meðaltal af gjaldi frá 2009 og sagt að það sé í rauninni það sama og nú er lagt til. En það sem skekkir myndina er að fyrstu þrjú árin á því tímabili voru nánast málamyndagjöld á greinina og allir sem kunna hlutfallsreikning skilja að það gefur ekki raunsanna mynd. Staðreyndin er að hv. þm. Lilja Rafney Magnúsdóttir studdi ríkisstjórn á árunum 2009–2013 sem talaði um að þau viðmið ættu að vera 60%, en nú eru þau 33% og þar er töluverður munur á. Þá held ég að ekki gangi að fullyrða eða óska þess eða vænta að hér sé komin einhver stór sátt í málinu.

Hv. þingmaður talar líka um að afkoma hafi versnað töluvert og vísar í tölur frá Deloitte, sem er sama fyrirtæki og reiknar milljarðatap fyrir útgerðir vegna makrílkvótans, en það er annað mál.

Hv. þm. Þorsteinn Víglundsson benti á að á síðasta ári voru verkföll sem höfðu örugglega mikil áhrif á greinina. Þá skulum við á endanum ekki gleyma þeirri staðreynd að tíu stærstu, held ég, útgerðarfyrirtækin í landinu greiddu sér 23 milljarða, þannig að varla hefur árað sérstaklega illa hjá þeim. Væntanlega gætu þau fyrirtæki a.m.k. staðið fyrir meiri innborgun fyrir nýtingu á takmörkuðum auðlindum í augu þjóðarinnar á sama tíma og ríkisstjórnin sér ekki fært að efna að fullu loforð sem gefin voru við 1. umr. fjárlaga og kom ekki til móts við hópa sem allt uppgangstímabilið, sem er fordæmalaust langt í lýðveldissögunni, fengu í rauninni það réttlæti sem hefði mátt vænta og hefði a.m.k. mátt trúa að Vinstrihreyfingin – grænt framboð myndi berjast með oddi og egg fyrir. Nú má vel vera að þau átök hafi átt sér stað inni í ríkisstjórnarherberginu eða hjá þingflokkunum. En það er ekki sýnilegt hér ef við berum saman þá vegferð sem við erum í með veiðigjöldin og horfum til fjárlaga og þeirra breytinga, sérstaklega á fjárlögum, sem voru milli umræða, af því að það skal viðurkennast að býsna miklu var bætt í og ekki veitti af í fjárlögunum.

Það er sérkennilegt að í fjárlagaumræðunni hafi peningar til verstu hópanna dregist saman á sama tíma og útgerðin er varin algjörlega óháð því hvort fyrirtækin eru illa stödd eða vel stödd. Ég skal vera fyrstur til að viðurkenna að það kann að vera að til séu útgerðarform í landinu, hvort sem það fer eftir því eða stærðum eða öðru, ég ætla ekki að þrátta um það, sem eiga við meiri rekstrarerfiðleika að glíma og eitthvað í umhverfinu sem gerir það að verkum. Það kann líka að vera að það þurfi að verja þau fyrirtæki vegna þess að þau geta haft bæði menningarlega mikilvægt hlutverk í landinu og ekki síður byggðarlega. Förum þá þangað og bætum þeim fyrirtækjum á einhvern hátt upp þær aðstæður sem þau búa við og réttlætum það með því að við séum að verja hagsmuni sem ég held að við séum öll sammála um. En mér finnst skrýtið að taka heila atvinnugrein þar sem skilur ótrúlega mikið á milli verst reknu fyrirtækjanna og þeirra best reknu og stilla gjaldtökuna, miða við þá sem eru í mestu erfiðleikunum og leyfa öllum hinum sem þar eru fyrir ofan einhverja línu að ganga út úr greininni með milljarða á milljarða ofan.

Ég spyr: Í hvaða atvinnugrein þekkist það? Sjálfur er ég búinn að vinna 20–30 ár í byggingargeiranum. Stundum hefði maður kannski óskað þess að þar væru reistar þannig girðingar að ekkert fyrirtæki gæti hreinlega lent í rekstrarerfiðleikum. Þannig hefur það ekki aldeilis verið. Á þeim 20–30 árum er ég sennilega búinn að fara í gegnum þrjár eða fjórar byggingarkreppur. Þannig er lífið. En ég held hreinlega að það sé þannig að mikill hluti af þessum fyrirtækjum ætti að geta borgað meira. Og af því að við erum að tala um þetta óleysta svar, hina ósvöruðu spurningu í frumvarpinu um hvað gjaldið eigi að vera hátt, af því að sú umræða hefur raunverulega ekki átt sér stað heldur er bara búið að búa til einhverja reikniformúla, þá velti ég líka fyrir mér að með frumvarpinu er í rauninni verið að losa fyrirtækin við gjöld miðað við afkomuna 2015, sem er eitt besta árið í útgerð síðari ára. Eigum við ekki að framlengja þetta frumvarp óbreytt um eitt ár eins og við gerðum í haust og fá dálítið miklar tekjur fyrir 2015 sem er hægt m.a. að nýta upp í kostnað vegna útgjalda sem við verðum fyrir út af makrílklúðrinu? Ég held að það væri reynandi.

Í þessum umræðum, alveg frá fyrsta degi, hafa stjórnarflokkarnir reynt að aftengja umræðuna um veiðigjöld frá úthlutunaraðferðum með öllu. Það er alveg rétt að þetta var skilið að á sínum tíma. En ég held að bæði dómurinn og umræðan í samfélaginu sýni okkur að það er ekkert hægt, þetta hangir allt saman. Það er enn skrýtnara þegar menn eru með ótímabundnar heimildir sem verða til vegna veiðireynslu í þrjú ár, að verið sé að lækka gjaldið og að það sé extra lágt. Það ætti einmitt að vera miklu hærra ef menn hafa ótímabundnar heimildir og geta gengið út frá því sem vísu. Ef við tökum verktakafyrirtæki sem væri búið að byggja 30% af opinberum byggingum síðustu þrjú til sex árin, myndum við láta okkur detta í hug að í framtíðinni myndu þau halda þeim 30% alveg sama hvað yrði byggt, Landspítalinn eða nýtt Þjóðleikhús eða menningarhús eða hvað sem er? Það þætti öllum fráleitt, af því að almenna reglan er auðvitað að ef verið er að kaupa eða deila út takmörkuðum gæðum þá er tilboða leitað.

Við höfum hins vegar ekki komið inn í þessa umræðu með tillögur um markaðsgjöld vegna þess að við erum raunsæ og áttum okkur á því að hér er ekki meiri hluti fyrir því. Það væri auðvitað miklu skynsamlegri leið vegna þess að þá værum við virkilega að tala um afkomutengingu, af því að góðir útgerðarmenn myndu væntanlega bjóða miðað við það sem þeir telja sig geta gert. Þar fyrir utan getum við svo verið með ýmsar hindranir eða girðingar eins og eru í raun í öllum mögulegum útboðum til þess að gæta sjónarmiða þeirra sem eru smærri, þeirra sem búa í dreifðum byggðum eða annað slíkt. Það er í rauninni verið að snúa út úr þegar því er haldið fram að í því felist einhver brjálæðislegur stórkapítalismi sem muni þjappa öllum veiðiheimildum á fárra hendur. Það þarf ekkert að vera svona. Við erum með lög um hversu mikið má eiga og veiða. Við getum líka verið með reglur um stærðir og ýmislegt annað. Vissulega mun það gefa lægra gjald í útboði en ella, en ég held að við séum öll sammála um að markmiðið er ekki að taka eins mikið og við mögulega getum af því að við viljum byggja þessa grein á fyrirsjáanleika og við viljum að hún sé rekstrarhæf. Það er ekki verið að ræða það. En þetta er að mörgu leyti miklu eðlilegra. Og þetta er, eins og ég alla vega las og lærði þá litlu stjórnmálafræði sem ég gerði í mínum menntaskóla og í gegnum lestur dagblaða, rauði þráðurinn í hugmyndafræði sem hæstv. sjávarútvegsráðherra eða flokkur hans stendur fyrir. Ég held að þetta væri miklu betra.

Ég held að líka sé nauðsynlegt að tímabinda heimildirnar. Ég held að við sjáum það á þeim dómi sem féll að það er nauðsynlegt og það er líka langeðlilegast, vegna þess að það geta komið upp sjónarmið, það getur myndast sú staða að menn vilji fara aðrar leiðir. Þá er náttúrlega ófært að við getum það ekki. Líklega væri best að við næðum saman um nýtt auðlindaákvæði í stjórnarskrá, en bitur reynsla okkar síðustu ár sýnir okkur að það verður varla gert neitt á næstunni þrátt fyrir að við vildum gjarnan gera það.

Ég átta mig á því að þetta frumvarp mun verða að lögum. Ég skil það og hef áttað mig á því að hér inni er meiri hluti fyrir því. Þá verður svo að vera. Ég vonast til þess að breytingartillaga um að framlengja þetta í eitt ár nái fram að ganga, vegna þess að ég tel það skynsamlegast. Ég held að það væri greininni fyrir bestu að meiri sátt næðist um kerfið þannig að ný ríkisstjórn sem hefur aðrar hugmyndir og þjóð sem fær að kjósa næst og velur að byggja á öðrum sjónarmiðum þurfi ekki að horfa upp á að verið sé að kollvarpa kerfi, enda viljum við það ekki. Við erum tilbúin til að mæta inn í svona umræðu á sáttamiðaðan hátt. Við áttum okkur á því að við fáum ekki allt.

Ég myndi t.d., hv. þm. Lilja Rafney Magnúsdóttir, álíta að það væri fullnægjandi sigur fyrir Samfylkinguna að ná fram þó ekki væri nema í bili fiskveiðistefnunni eins og hún birtist á heimasíðu Vinstri grænna. (Gripið fram í: Gangið bara í Vinstri græna.) Það væri í rauninni nægilegt fyrir mig vegna þess að sá flokkur hefur talað fyrir sjónarmiðum sem mér hafa sumpart hugnast. Flokkurinn birtir á heimasíðu sinni stefnu sem er í algjörri andstöðu við það sem þeir tala svo um á þessu þingi og heiðarlegast væri þá að segja: Í þágu stærri hagsmuna sem við teljum okkur vera að ná í þessu og þessu og þessu máli, þá bökkuðum við og gáfum eftir í þessu máli.

Það kemur á óvart að hv. þingmaður skuli verja þetta (Forseti hringir.) með kjafti og klóm.