149. löggjafarþing — 45. fundur,  10. des. 2018.

veiðigjald.

144. mál
[18:37]
Horfa

Logi Einarsson (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Ég er nú reyndar að tala fyrir því að lögin eins og þau eru í dag haldist óbreytt í eitt ár og menn greiði þá miðað við eins og reksturinn var 2015. Ég held að það sé rosalega mikilvægt fyrir okkur að tengja þessi mál aftur saman, reyna að ná sátt um tímabundna úthlutun. Þá er hægt að byggja á frumvarpi fyrrverandi sjávarútvegsráðherra, hæstv. samgönguráðherra í dag. Allir flokkar nema Sjálfstæðisflokkurinn hafa talað fyrir því. Ég held að það megi líka alveg ræða það efnislega eftir eitt ár, þegar við semjum og samþykkjum svo frumvarp sem lýtur að rauntímagreiðslu eins og hér er til umræðu, hvort hún eigi að vera 33% eða 40% eða 50% eða hvað. Sú umræða hefur ekki farið fram.