149. löggjafarþing — 45. fundur,  10. des. 2018.

veiðigjald.

144. mál
[18:39]
Horfa

sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra (Kristján Þór Júlíusson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég held að sú umræða hafi ekki getað átt sér nægilega mikinn stað hér í þingsal vegna þess að menn hafa verið uppteknir af því að blanda fiskveiðistjórnarlögum og breytingum á þeim inn í umræðu um breytingar á lögum um veiðigjald. En ef ég hef skilið hv. þingmann rétt þá er hann að mælast til þess að í stað tveggja til þriggja ára gamalla upplýsinga til grundvallar veiðigjaldi þá verði veiðigjald næsta árs ákveðið á grundvelli þriggja til fjögurra ára gamalla upplýsinga. Við eigum bara að láta greinina þola það lengur. 8. gr. laganna um veiðigjald, sem hér er gerð tillaga um að verði framlengd, kveður á um það að Hagstofa Íslands safni upplýsingum um hag veiða og vinnslu. Hún kveður á um það að nýjustu skýrsluna eigi að nýta til að leggja veiðigjöldin á. Þetta er einföld spurning: Á sem sagt ekki að nýta þá skýrslu til álagningar og sem grundvöll álagningar veiðigjalda ársins 2019?