149. löggjafarþing — 45. fundur,  10. des. 2018.

veiðigjald.

144. mál
[18:43]
Horfa

Þorsteinn Víglundsson (V) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni svarið. Ég kannast nefnilega ekki við það heldur að til okkar flokks hafi verið leitað í þessum efnum. Formaður atvinnuveganefndar talar um einmitt víðtækt samráð og jákvæðar umsagnir í málinu. Ég er svo sem ekkert hissa á því. Mér sýnist að hvert einasta útgerðarmannafélag landsins hafi skilað inn sjálfstæðri umsögn um málið, og að þær skuli teljast að meiri hluta til jákvæðra umsagna kemur kannski ekkert á óvart miðað við hvert eðli og efni þessa frumvarps er.

En það veldur manni vissulega vonbrigðum að menn taki það ekki einu sinni alvarlega, taki það ekki föstum tökum að reyna að ná einhverri þverpólitískri sátt um það, því að þessi ríkisstjórn hefur boðað önnur og breytt vinnubrögð. En hún sýnir það því miður ekki hér í máli sem er orðið svo brýnt. Ríkisstjórn, sem nýtur núna stuðnings 40% þjóðarinnar og fer ört minnkandi samkvæmt skoðanakönnunum, ætti kannski að hafa það í huga að í þetta skiptið væri vert að reyna en það, en það virðist ekki ætla að gerast í þetta skiptið frekar en hin.