149. löggjafarþing — 45. fundur,  10. des. 2018.

veiðigjald.

144. mál
[18:47]
Horfa

Logi Einarsson (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Ég held að það sé alveg viðbúið að það geti tekið nokkur misseri, jafnvel ár, að ná sátt í kerfinu. Hún næst hins vegar aldrei ef þetta er gert alltaf með gömlu aðferðinni, að það kemur bara tilbúið frumvarp og það fer til umræðu. Og jafnvel þó að kallaðir séu umsagnaraðilar þar inn og fólk skiptist eitthvað á skoðunum í nefndinni, þá er ekkert gert til þess að reyna að finna einhvern samhljóm áður en frumvarpið kemur fram.

Ég talaði áðan um þverfaglegan samráðshóps sem hv. þm. Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir stofnaði þegar hún var ráðherra. Ég held að það hefði einmitt verið rétta aðferðin. Þrátt fyrir að einhverjir beri því við að sá hópur hafi verið sprunginn áður en ríkisstjórnin sprakk, þá er það rangt. Þar var efnislega góð samræða. Fólk var í rauninni komið dálítið áleiðis (Forseti hringir.) við að ná utan um ákveðna mikilvæga þætti. Ég held (Forseti hringir.) að hæstv. sjávarútvegsráðherra væri sæmst að endurskipa þann hóp.