149. löggjafarþing — 45. fundur,  10. des. 2018.

veiðigjald.

144. mál
[18:51]
Horfa

Kolbeinn Óttarsson Proppé (Vg) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég ætlaði að tala um allt annað, en þessi aðdáun og dásömun hv. þingmanns á sáttanefnd fyrrverandi hæstv. ríkisstjórnar vekur mikla furðu mína og lýsingar hv. þingmanns á því að það hafi bara gengið mjög vel í þeirri nefnd og menn verið komnir nokkuð áleiðis eru í hróplegu ósamræmi við grein sem núverandi hæstv. heilbrigðisráðherra, Svandís Svavarsdóttir, skrifaði 1. september í fyrra í Kjarnanum, þáverandi fulltrúi Vinstri grænna í þessari sáttanefnd. Mig langar að spyrja hv. þingmann hvort hann kannist ekki við þá gagnrýni hv. þm. Svandísar Svavarsdóttur á nefndina, þar sem byrjað var á því að sparka í Vinstri græn og Framsókn af formanni nefndarinnar, segja að þau væru alveg þver. Hv. þm. Svandís Svavarsdóttir skrifaði sérstaklega um það. Svo skrifaði hún aðra grein 1. september, rétt áður en ríkisstjórnin, sem hv. þingmaður saknar svona ef skilja má af máli hans, féll, þar sem hún fer yfir það að tillögur fulltrúa Viðreisnar, hv. þm. Hönnu Katrínar Friðriksson, séu á þá leið að ekkert sé fjallað um (Forseti hringir.) þjóðareign á auðlindinni heldur byggt á þeirri nálgun að um sé að ræða samninga milli útgerðarinnar og ríkisins á einkaréttarlegum grunni. Er þetta sú sátt sem hv. þingmaður saknar svo?