149. löggjafarþing — 45. fundur,  10. des. 2018.

veiðigjald.

144. mál
[18:52]
Horfa

Logi Einarsson (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Það er ekki rétt hjá hv. þm. Kolbeini Óttarssyni Proppé, að ég sakni fyrrverandi ríkisstjórnar sérstaklega, en þó get ég ekki séð að það sé allur munurinn á, nema þá kannski að þessi gengur skemur í loftslagsmálum.

Ég las grein hv. þingkonu þáverandi, Svandísar Svavarsdóttur, og ég átta mig ekki á hverju hv. þm. Kolbeinn Óttarsson Proppé er að lýsa þegar hann talar um að það hafi verið sparkað í Framsóknarflokkinn og Vinstri græna í þeirri vinnu. Eins og ég upplifði þetta þá fór stærsti tíminn í það að viða að sér gögnum og reyna að finna einhvern grunn, finna sameiginlega fleti, og ef eitthvað er þá fannst mér kannski helst að fulltrúi Sjálfstæðisflokksins skæri sig úr og hv. þm. Svandís Svavarsdóttir væri svona frekar með á okkar nótum. Hún talaði hins vegar um það að kannski ættum við fyrst að ná í gegn (Forseti hringir.) breytingum á stjórnarskrá og byggja á því.