149. löggjafarþing — 45. fundur,  10. des. 2018.

veiðigjald.

144. mál
[18:54]
Horfa

Kolbeinn Óttarsson Proppé (Vg) (andsvar):

Virðulegur forseti. Svo ég vitni í fyrri af tveimur greinum hv. þm. Svandísar Svavarsdóttur, þegar hún lýsir því hvernig formaður þeirrar nefndar, Þorsteinn Pálsson, hóf vinnuna með því að kenna minni hlutanum um að meiri hlutinn geti ekki komið sér saman um stórmál:

„Ekki varð hjá því komist að svara þessari grein Þorsteins enda var engu líkara en að formaðurinn væri að reyna að koma sökinni fyrir fram á aðra flokka á því sem fyrirsjáanlegt væri, eða því að starf nefndarinnar myndi engu skila.“

Þetta var, virðulegur forseti, andinn í þeirri nefnd sem hv. þm. Logi Einarsson, sem vissulega sat ekki í nefndinni, gefur að mínu viti brogaða mynd af með því að tala um að það hafi gengið bara virkilega vel. Það eru skjalfest dæmi um að einn hv. fulltrúi í nefndinni hafi ekki skrifað eina heldur tvær greinar sérstaklega um það og komið inn á það að líklega hafi nefndin aldrei neinu átti að skila. Já, vissulega var skotið á fulltrúa hv. Sjálfstæðisflokks líka. Hárrétt hjá þingmanni. En mér finnst þetta mjög broguð mynd sem hv. þingmaður gefur hér af atburðum sem ekki er þó lengra en eitt ár síðan að áttu sér stað.