149. löggjafarþing — 45. fundur,  10. des. 2018.

veiðigjald.

144. mál
[18:55]
Horfa

Logi Einarsson (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Já, það er rétt að formaður nefndarinnar, Þorsteinn Pálsson, skrifaði grein og talaði um minni hlutann. Ég tók það ekkert sérstaklega til mín, en kannski sannast það í þessu máli að sannleikanum verður hver sárreiðastur og einhverjir hafi séð sig knúna til að skrifa grein. En skoðun eins nefndarmanns, jafnvel þó að sá nefndarmaður skrifi tvær greinar, meira að segja þrjár, verður ekkert vísindalegri heimild um störf nefndarinnar en í rauninni afstaða annarra í nefndinni. Ég er hér einfaldlega að lýsa minni upplifun. Og hv. þm. Svandís Svavarsdóttir, núverandi hæstv. heilbrigðisráðherra, var afskaplega góður þátttakandi í vinnu þessarar nefndar og það var ekki einu sinni komið á borðið neitt sem gat verið ásteytingarsteinn hjá henni. Hún var yfirleitt sammála okkur, hins vegar hélt fulltrúi Sjálfstæðisflokksins alltaf uppi sér sjónarmiðum á hverjum fundi.