149. löggjafarþing — 45. fundur,  10. des. 2018.

veiðigjald.

144. mál
[20:17]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir ræðuna og er, alla vega eftir því sem ég tók eftir, sammála því sem þar kom fram. Mig langar hins vegar að fræðast aðeins meira um, hvað á maður að segja, svona langtímasýn hv. þingmanns og kannski hans ágæta flokks í sambandi við það hvernig ætti að haga gjaldtöku gagnvart þessari auðlind í framtíðinni.

Í umræðunni er oft gerður greinarmunur á fiskinum í sjónum annars vegar og kvótanum hins vegar, sérstaklega þegar fólk fer að tala um eignarrétt og því um líkt, skatt eða gjald eða eitthvað slíkt. Í stefnu flokks míns og a.m.k. eins annars hér á þingi, veit ég, er stefnan sú að bjóða aflaheimildir upp árlega til þeirra sem vilja nýta þær á hverju ári og þá geti aðilar sem hyggjast veiða fisk boðið í þær aflaheimildir og þannig myndi ríkið fá í sinn skerf það sem markaðurinn ákveddi sjálfur að ríkið skyldi fá. Þegar við tölum um markaðsleiðir er þetta í raun og veru sú leið sem mér skilst að fólk sé að meina.

Ég er ekki meðvitaður um neinar aðrar leiðir sem kallaðar eru markaðsleiðir, alla vega í neinum almennum skilningi, þegar við erum að ræða framtíðarsýnina hérna. Þess vegna langar mig að fá aðeins skýrari sýn frá hv. þingmanni um hvernig langtímafyrirkomulagið sé hugsað hjá hv. þingmanni og hans ágæta flokki.

Það er reyndar líka annað sem mig langar til að spyrja hv. þingmann út í og það er í sambandi við framsalið. Mér hefur sýnst framsalið vera það sem hafi í raun og veru stofnað til mestu leiðindanna í íslenskri umræðu um þetta mál á sínum tíma, ekki í sjálfu sér að takmarka þurfi veiðarnar, þótt það hafi vissulega verið umdeilt á sínum tíma líka, þá er það þetta frjálsa framsal sem fer fyrir brjóstið á fólki.

Ég velti fyrir mér er hvort hv. þingmaður telji það vera vegna þess að á þeim tíma hafi eitthvert fólk grætt alveg óskaplega mikið á því sem almenningi eða mörgum finnst það ekki hafa átt tilkall til (Forseti hringir.) eða hvort það sé innbyggður kerfisgalli í fyrirkomulagi sem þyrfti þá að afnema. Því að mér sýnist að það þyrfti að fara meðfram því að fara þessa markaðsleið sem ég nefndi hérna áðan.