149. löggjafarþing — 45. fundur,  10. des. 2018.

veiðigjald.

144. mál
[20:20]
Horfa

Þorsteinn Víglundsson (V) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni andsvarið. Það er alveg rétt að þegar við erum að útdeila takmörkuðum gæðum, og sér í lagi þegar kemur að einhvers konar nýtingarrétti á náttúruauðlindum, viljum við stýra hvernig þær eru nýttar. Við viljum t.d. stýra heildarumfangi veiða hérna, nýtingu jarðvarma eða vatnsfalla eða einhverju þess háttar. Og þá er bara mjög eðlilegt að gera um það langtímasamninga til að tryggja fyrirsjáanleika og það er það sem hefur ítrekað verið lagt til af vel flestum þeim nefndum sem hafa fjallað um þetta, eins og t.d. auðlindanefnd á sínum tíma. Á samráðsvettvangi voru líka svipaðar hugmyndir viðraðar, að einfaldlega verði langtímanýtingarsamningar, tímabundnir engu að síður, sem boðnir væru út. Það væri t.d. hægt að vera með 20–25 ára nýtingarsamninga í sjávarútvegi sem væru þá boðnir út í réttu hlutfalli árlega, 4–5% á ári, og seldir hæstbjóðanda. Þannig tryggði ríkið sér og þar með sjálfu sér og þjóðinni sanngjarna hlutdeild í arðsemi greinarinnar. Ég held að það gæti skapað meiri sátt um framsalið, sem er mjög mikilvægur þáttur fiskveiðistjórnarinnar, að það sé frjálst framsal og hægt sé að ýta undir aukið hagræði í greininni.

Það er auðvitað vert að hafa í huga líka að þetta gríðarlega háa verð á veiðiheimildunum í sölu milli aðila endurspeglar að það er kannski ekki mjög mikil gjaldtaka af hálfu þjóðarinnar í þessu. Ef veiðigjöldin væru hærri væri væntanlega kvótaverðmætið sjálft heldur minna. Þetta helst auðvitað í hendur. Ég held að það gæti verið miklu ríkari sátt um fiskveiðistjórnarkerfið sem við höfum, sem hefur marga mjög góða og mikilvæga kosti, þar með talið framsalið, ef gjaldtökunni væri háttað með einhverjum eðlilegum hætti og fólk hefði sannfæringu fyrir því að það væri sanngjarnt verð greitt fyrir.