149. löggjafarþing — 45. fundur,  10. des. 2018.

veiðigjald.

144. mál
[20:22]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég, eins og margir í mínum ágæta flokki, hef stundum velt fyrir mér hvað fólk eigi við þegar talað er um sátt. Ég held að það sé alveg rétt hjá hv. þingmanni að meiri sátt yrði í samfélaginu um þetta allt saman, og mér sýnist það stafa af tveimur ástæðum eins og ég nefndi. Það er annars vegar það sem fólk upplifir sem mikið óréttlæti sem átti sér stað á sínum tíma þegar aðilar með veiðireynslu fengu úthlutað kvóta sem síðan var hægt að selja frá sér. Þá voru, auðvitað með stórkostlegum gróða, í raun og veru búin til ný verðmæti í skilningi markaðarins, þ.e. kvótinn verður einhvers virði. Þegar hægt var að selja hann má segja með svona ákveðinni einföldun að peningar hafi verið búnir til, þeim útbýtt og úr öllu því havaríi stendur óskaplega mikil deila og biturð er í samfélaginu, a.m.k. í þeirri umræðu ég hef tekið þátt í.

Það er bara annar hængurinn á þessu, vegna þess að alla vega er sagt núna að flestir þeir aðilar eða 90 og eitthvað prósent, ég veit ekki hve rétta talan er, en mér er sagt að rúm 90% hafi þegar selt þetta og búi núna bara einhvers annars staðar eða einhvers staðar í sólarlöndum og njóti þess. Þess vegna sé ekki hægt að fara í það að breyta kerfinu gagnvart þeim sem hafa keypt kvótann af þeim aðilum. En þetta er annar vinkillinn. Þetta er annar hængurinn eins og ég segi.

Hitt er síðan: Hvert er kerfislega óréttlætið í kerfinu eins og það er í dag? Ég hef velt fyrir mér að þegar við erum að hanna lausnir í kringum fiskveiðar, hvaða núansar væru svo sem á því, hvort fólk sé að reyna að leiðrétta eitthvað sem gerðist í fortíðinni sem verður ekki leiðrétt úr þessu eða hvort það sé einungis að horfa til framtíðar og líta á það hvernig kerfi geta verið í framtíðinni með hliðsjón af þeim sem koma t.d. nýir inn á markaðinn. (Forseti hringir.) Sér í lagi velti ég fyrir mér hvort kerfisbreyting í svona (Forseti hringir.) markaðsleið myndi gera nýjum aðilum erfiðara að komast inn á markaðinn.