149. löggjafarþing — 45. fundur,  10. des. 2018.

veiðigjald.

144. mál
[20:27]
Horfa

Þórhildur Sunna Ævarsdóttir (P):

Frú forseti. Við erum hér í síðustu umræðu um frumvarp um veiðigjald. Ég hef nú sagt ýmislegt um þetta frumvarp og skoðanir mínar á því. Í þessari fyrstu ræðu minni í 3. umr. þá vil ég einbeita mér að atriði sem ég hef ekki fengið útskýrt í þessari umræðu og hvað þá við undirbúning þessa máls, enda var hvorki haft samráð við okkur í stjórnarandstöðunni né að því er virðist fleiri aðila við undirbúning málsins þótt vissulega hafi það farið í gegnum nefndina mína, atvinnuveganefnd, í sínu ferli þar.

Það sem er að brjótast í mér og það sem ég hef bara ekki skilið hingað til og hef ekki fundið réttlætingu fyrir hingað til er hvers vegna verið er að taka vinnsluliðinn út úr reikningi á veiðigjaldi. Ég hef ekki séð neinar haldbærar skýringar á því hvers vegna það var nauðsynlegt. Ég hef eiginlega bara séð gagnrýni á þetta fyrirkomulag vegna þess að það býr til bakdyr eða hvata fyrir fyrirtæki sem eru með samþætta útgerð, veiðar og vinnslu, til að færa hagnaðinn af veiðunum yfir á vinnsluna og losna þannig við einhvern stabba af peningum sem veiðigjald yrði annars reiknað af. Það gæti líka mögulega lækkað laun til sjómanna, lækkað launakostnað hjá útgerðunum gagnvart sjómönnum. Þetta er eitthvað sem ég veit að margir sjómenn hafa áhyggjur af.

Í greinargerð frumvarpsins er því haldið fram að vitað hafi verið um sjónarmið helstu hagsmunaaðila og starfsmanna innan greinarinnar þegar þetta frumvarp var samið. Ég velti fyrir mér hvort það eigi við um þann hluta að taka vinnsluna út úr þessum pakka. Það hefur alla vega ekki komið fram svo skýrt sé að einhverjar kröfur hafi komið frá, segjum sjómönnum, um að taka vinnsluna út. Einu skýringarnar sem ég hef séð á þessari breytingu er einhvers konar bleikþvottur, tilvísun í það að konur séu að vinna í landvinnslunni og þess vegna sé það voða góð breyting að taka vinnsluna út þótt ég sjái ekki að það haldi neinu vatni.

Ástæðan fyrir því að ég tel þetta ekki halda vatni er að ég las ágæta grein eftir mann að nafni Indriði H. Þorláksson, sem hefur verið vitnað mikið til í umræðunni um þetta mál, enda fantagóð grein. Þar er ágætisútskýring sem ég held að geri þessu máli, milliverðlagningunni, miklu betur skil en ég get mögulega gert. Um þetta segir í grein Indriða H. Þorlákssonar um veiðigjöld í Kjarnanum um daginn, með leyfi forseta:

„Nær öll fiskvinnsla í landinu er í eigu útgerða eða öfugt eða útgerð og vinnsla er í eigu sama aðila. Stór hluti „erlendra“ kaupenda íslenskra fiskafurða eru félög í eigu fiskútflytenda. Eignatengslin gera það mögulegt að flytja rentuna frá veiðunum til vinnslunnar eða hinna „erlendu“ kaupenda með verðlagningu í viðskiptum tengdra aðila. Án eignartengsla og með samkeppni um kaup á fiskafurðum væri engin fiskveiðirenta hjá vinnslunni eða kaupendum afurðanna. Mat á heildarrentu af fiskveiðum getur því ekki byggst á veiðunum einum saman og nauðsynlegt er að leggja mat á rentu í veiðum og vinnslu í heild sinni.

Í lögunum frá 2012 var farin sú leið að meta rentu í vinnslu og veiðum með sama hætti. Frá heildartekjum án innbyrðisviðskipta var dreginn kostnaður, þar með talinn fjármagnskostnaður, í veiðum og vinnslu. Þar sem öll rentan á uppruna í veiðunum var henni jafnað niður á aflamagnið.“

Svo koma fram hlutir sem mér þykja skipta mestu máli, með leyfi forseta:

„Sumir sem ekki skildu eða vildu ekki skilja þessa aðferð héldu því fram að með þessu væri verið að leggja veiðigjald á vinnsluna sem er ekki rétt. Ekkert fyrirtæki sem hafði eingöngu tekjur af vinnslu en ekki veiðum greiddi veiðigjald.

Í frumvarpinu er vikið af þessari leið og rentan nær eingöngu reiknuð út frá veiðunum. Með því er litið fram hjá því að verð til vinnslu eða sölu milli tengdra aðila er lægra en eðlilegt er og rentan í fiskveiðum vanreiknuð sem því nemur. Fiskverð er oft talið vera a.m.k. 20% undir markaðsverði fyrir botnfiskafla og að munurinn sé enn meiri fyrir uppsjávarafla. Að milliverðlagning eigi sér stað er viðurkennt í frumvarpinu og reynt að bæta úr því með því að reikna 10% álag á rentu uppsjávartegunda. Þessi leiðrétting er þá ófullnægjandi. Það eru ekki góð vinnubrögð að líta fram hjá augljósum staðreyndum sem skipta miklu máli og nota ekki tiltækar aðferðir til að taka þær til greina. Með því er litið fram hjá hluta þeirrar auðlindarentu sem þjóðin á tilkall til og lögð blessun yfir vafasamt atferli þótt löglegt kunna að vera.

Hvati er þegar fyrir hendi til vanreiknings á söluverði með milliverðlagningu, m.a. vegna tengingar launa sjómanna við fiskverð, en getur einnig verið fyrir hendi af skattalegum ástæðum o.fl. Með því að láta ranga milliverðlagningu einnig hafa áhrif á veiðigjöld verður þessi hvati sterkari en áður. Það að taka ekki þá rentu sem flutt er til fiskvinnslu eða sölu með í útreikning veiðigjalda mun því ekki aðeins ræna þjóðina hluta auðlindarentunnar heldur einnig þrýsta fiskverði niður og rýra þannig hlut sjómanna og sjálfstæðra útgerða sem eru háð sölu afurða til keppinauta sinna.“

Svo mörg voru þau orð. Þetta er eitthvað sem hefur vafist svolítið fyrir mér. Hvers vegna er verið að setja inn þessa breytingu, sér í lagi í ljósi þess að hún opnar þessar bakdyr? Það virðist vera, alla vega eins og staðan er núna, að það séu ekki tæki fyrir hendi sem geti fyllilega tryggt að þetta verði ekki svona hjá samþættum útgerðum. Hv. formaður atvinnuveganefndar, Lilja Rafney Magnúsdóttir, spurði mig í andsvari sem ég náði aldrei að svara almennilega í 2. umr. þessa máls, hvort ég treysti ekki ríkisskattstjóra til að fylgja þessu eftir. Hvort ég treysti ekki þeirri góðu stofnun til þess að tryggja að þetta yrði gert. Vegna þess að mér láðist að svara henni í það skipti þá ætla ég að leyfa mér að svara henni í þetta skipti. Auðvitað treysti ég ríkissaksóknara til að vinna bara mjög vel sína vinnu. Þetta er fyrirtaksstofnun og ég held að hún geti staðið sig afskaplega vel. Ég hlýt þó að spyrja mig þegar eftirfarandi kemur fram í umsögn frá ríkisskattstjóra, með leyfi forseta:

„Ákvörðun á fiskverði milli útgerðar og fiskvinnslu í eigu sama félags getur leitt til spurninga um hvort um rétt verð sé að ræða sem samkynja þeim álitaefnum sem uppi eru í svokallaðri milliverðlagningu. Möguleikar ríkisskattstjóra á að leiðrétta aflaverðmæti samkvæmt eyðublaði RSK 4.29 eru takmarkaðir, þar sem mál sem varða milliverðlagningu eru almennt tímafrek og vandasöm í vinnslu og geta kallað á mikla upplýsingaöflun. Álagningu lögaðila á árinu 2018 lauk í lok september. Stórum hluta skattframtala lögaðila er skilað frá maíbyrjun og fram í byrjun september. Samkvæmt frumvarpinu skal ríkisskattstjóri gera tillögu um fjárhæð veiðigjalds hvers nytjastofns fyrir komandi veiðigjaldsár til þess ráðherra sem fer með sjávarútvegsmál eigi síðar en 1. desember á ári hverju. Þannig er ljóst að meginhluti vinnunnar til grundvallar útreiknings veiðigjalds þarf að eiga sér stað fyrir álagningu lögaðila, þ.e. frá maímánuði og fram í byrjun september, þar sem ríkisskattstjóri mun hafa mjög takmarkaða möguleika á að gera breytingar á innsendum greinargerðum eftir álagningu. Takmarkaðir möguleikar eru á vélrænum samanburði á ársreikningi félags sem er í blandaðri starfsemi við aflaverðmæti samkvæmt eyðublaðinu þar sem tekjur félagsins af útgerð eru ekki sérgreindar í skattframtali félagsins […]. Hið litla svigrúm til leiðréttinga á einstökum fjárhæðum á eyðublaðinu skýrast að stórum hluta af þeim knappa tímaramma sem vinnu þessari er settur, eðli máls samkvæmt.“

Þarna kemur fram að það getur bæði verið mjög kostnaðarsamt og tímafrekt að setja þetta upp. Það er takmarkaður tími til stefnu til þess að gera þetta og þetta þarfnast mikillar upplýsingaöflunar og vinnu og á að gerast á því stutta bili sem ríkisskattstjóri hefur áður en hann fer í sína stærstu vinnu. Ríkisskattstjóri, svo langt sem ég skildi samræður við fulltrúa þeirrar ágætu stofnunar, sem ég endurtek að ég treysti fyllilega til að sinna sínu starfi vel, gat ekki sagt til um það hvort hægt væri að tryggja að milliverðlagning myndi ekki eiga sér stað, þ.e. að þetta yrði ekki algeng leið til að skjóta peningum undan veiðigjaldaupphæðinni.

Þetta fannst mér og finnst enn þá vera stærsta óútskýrða málið. Hvers vegna er þessi leið farin? Ég hef engar rökrænar skýringar fengið á því hvers vegna þetta var nauðsynlegt. Ég sé ekki að nokkur rök séu færð fyrir þessari breytingu í greinargerð með frumvarpinu nema að því leytinu til að frumvarpshöfundar telja sig vera í einhverjum jafnréttisbarningi í þessu máli sem ég hef ekki enn þá fengið útskýrt hvernig gengur nákvæmlega upp, sér í lagi þegar skýringar Indriða Þorlákssonar eru lesnar. Veiðigjald hefur aldrei verið lagt á vinnsluna per se. Það að ræða það í einhverju í framhjáhlaupi í greinargerð með frumvarpi um veiðigjald að frumvarpið hafi minni áhrif á konur sem vinna í fiskvinnslu, heldur engu vatni. Það eru útgerðirnar sem greiða þetta gjald fyrir notkunina á aflaverðmæti og það tengist þessum fiskverkakonum væntanlega ekki neitt. Þessi breyting mun hins vegar mögulega hafa veruleg áhrif á laun sjómanna. Ég hef ekki séð neitt um að það standi til að tryggja að svo verði ekki, þ.e. að þetta verði ekki notað til að lækka laun sjómanna. Ég skynja ekki að samráð hafi verið haft um þennan hluta máls við sjómenn, ég hef alla vega ekki séð því haldið fram einhvers staðar þó svo að í greinargerðinni með frumvarpinu sé talað um að viðhorf allra þeirra einstaklinga sem hafa eitthvað með sjávarútveginn að gera hafi verið kunn við gerð þessa frumvarps og þess vegna hafi ekki þótt nein ástæða til að tala við sérstaklega marga við undirbúning þessa frumvarps, alla vega ekki okkur í stjórnarandstöðunni og ekki a.m.k. alla sjómenn sem höfðu eitthvað um frumvarpið að segja þegar það var komið í þinglega meðferð.

Gallinn við að vísa stöðugt í að þingleg meðferð hafi átt sér stað og þess vegna skipti ekki máli að frumvarpið hafi ekki farið í samráðsgáttina er að sjálfsögðu sá að í samráðsgáttinni er hægt að koma að málinu miklu fyrr. Þá er greinargerðin t.d. ekki meitluð í stein eins og hún er eftir að búið er að leggja málið fram á þingi. Og greinargerðin er náttúrlega undirstöðuatriði í frumvarpinu sjálfu. Það læsir þingið alltaf svolítið inni. Þótt vissulega sé hægt að breyta frumvarpinu á einn eða þennan hátt þá er greinargerðin mjög mikilvægt gagn líka. Ef hún stendur óbreytt þá virkar það líka letjandi til þess að breyta kannski konkret hlutum við frumvarpið eins og þessu með vinnsluna. Ég held að það hafi aldrei komið til greina að breyta því. Það var búið að ákveða það án þess að hafa samráð við nokkurn mann eða bara einhverja útvalda menn sem við vitum ekki af.

Þetta situr enn þá í mér eftir 1., 2. og núna 3. umr. þessa máls. Ég fæ ekki skilið hvers vegna þetta þurfti að vera lendingin. Það er ekki útskýrt í greinargerðinni. Það hafa ekki komið fram neinar haldbærar skýringar á þessu nema einhver bleikþvottur sem ég tek ekki mark á, enda finnst mér hann ekki standast skoðun.

Þetta er kannski ástæðan fyrir því að það hefði verið mikilvægt að byrja miklu fyrr með samráð og þetta er líka ástæðan fyrir því að við leggjum til óbreytt fyrirkomulag til þess að við getum tryggt að það verði í fyrsta lagi auðvelt að fylgja lögmætum veiðigjaldsgreiðslum eftir, auðvelt að tryggja að svo sé, og erfiðara að svindla á kerfinu. Fyrir utan allt annað sem hefur verið rætt um í þessu máli þá vildi ég nota þessa fyrstu ræðu mína í 3. umr. til að ræða um þessar bakdyr sem hér er verið að búa til og þann algera skort á svörum og skýringum á því hvers vegna þessi leið var valin. Ég sé bara galla á henni og enga kosti. Það væri óskandi að einhver úr meiri hlutanum kæmi hingað upp og útskýrði þetta fyrir mér bara til þess að við getum öll verið með þetta á hreinu.