149. löggjafarþing — 45. fundur,  10. des. 2018.

veiðigjald.

144. mál
[20:52]
Horfa

Sigurður Páll Jónsson (M) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þm. Birni Leví Gunnarssyni fyrir andsvarið. Skref í rétta átt, sagði ég. Eins og ég hef sagt svo oft í ræðum hér undanfarið eru útgerðarflokkarnir margir og ólíkir. Ég hef talað um plástra í þessu fremur gallaða frumvarpi. Er það skref í rétta átt, í átt að sanngirni? Það er bara þannig að það er mjög erfitt að finna eina rétta tölu fyrir alla útgerðarflokka. Það er það sem ég er að meina.

Þeir sem eru ekki með kvóta en greiða samt auðlindagjald af því að þeir leigja til sín kvóta — þingmaðurinn spyr um það ef ég hef skilið hann rétt — þá eru reglurnar þannig núna að þeir greiða sem veiða. Þessu var breytt fyrir nokkrum árum og eru mjög deildar meiningar hvort það sé sanngjarnt. Á móti hefur leigukvótinn aðeins lækkað fyrir vikið. Persónulega fannst mér hitt sanngjarnara að þeir greiddu auðlindagjald sem eru kvótahafar en ekki bara þeir sem veiða. Spurningin um hver sé munurinn á skatti og gjaldi — það er kannski svolítil hártogun í útfærslu. Þetta er kallað auðlindagjald en ég og margir fleiri lítum á þetta sem skatt því að þetta er tekið af afkomu. Þannig er þetta reiknað út.