149. löggjafarþing — 45. fundur,  10. des. 2018.

veiðigjald.

144. mál
[20:54]
Horfa

Björn Leví Gunnarsson (P) (andsvar):

Virðulegur forseti. Jú, vissulega er þetta tekið af afkomu og þá velti ég fyrir mér hvort hér sé í raun tengingin yfir í það hvernig þetta er ríkisstyrkur. Það er alveg sama hvernig þér gengur. Þér gengur alla vega ekki það illa að veiðigjaldið komi til með að setja þig hausinn. Þú værir þá búinn að setja þig á hausinn á annan hátt. Mér finnst það rosalega skýrt varðandi fiskveiðistjórnarlögin að það er sagt að um sé að ræða auðlind í eigu þjóðarinnar. Þá hlýtur það að vera þannig að allar veiðiheimildir sem eru gefnar af eigu þjóðarinnar séu tengdar við notkunargjald á þeirri eign þjóðarinnar en ekki eign þeirra sem eru með veiðiheimildirnar, og getur alls ekki tengst neitt eignarrétti á því, það er mjög skýrt í fiskveiðistjórnarlögunum.

Til viðbótar við þetta langaði mig til að velta því aðeins upp hvort það væri kannski viðeigandi að fjalla eilítið um hagsmunatengsl hvað þetta mál varðar. Ef þingmenn eru t.d. tengdir útgerð á einhvern hátt, þarf þá ekki að gera grein fyrir því ef slík tengsl eru í gangi? Ég hef heyrt að hv. þingmaður hafi verið í útgerð og því um líkt og spyr hvort það að greiða atkvæði um þetta mál hafi einhver áhrif á útgerð sem þingmenn tengjast. Er það ekki hluti af ákveðnum hagsmunum sem þarf að gefa yfirlýsingu um?