149. löggjafarþing — 45. fundur,  10. des. 2018.

veiðigjald.

144. mál
[21:09]
Horfa

Björn Leví Gunnarsson (P):

Virðulegur forseti. Ég ætla að fara yfir nokkur atriði almennt um veiðigjalda- og fiskveiðistjórnarmál sem eru til skoðunar. Augljóslega eru ákveðin tengsl á milli laga um stjórn fiskveiða og þessara laga um veiðigjöld. Í greinargerð segir, með leyfi forseta:

„Mögulega má líta svo á að veiðigjald sé á mörkum skattlagningar og gjalds sem heimt er af auðlind í eigu þjóðarinnar.“

Þetta finnst mér einmitt tengjast dálítið mikið lögum um stjórn fiskveiða, þar sem segir, með leyfi forseta:

„Nytjastofnar á Íslandsmiðum eru sameign íslensku þjóðarinnar. Markmið laga þessara er að stuðla að verndun og hagkvæmri nýtingu þeirra og tryggja með því trausta atvinnu og byggð í landinu.“ — Það má segja ýmislegt um það hver áhrifin hafa orðið varðandi byggð í landinu. —„Úthlutun veiðiheimilda samkvæmt lögum þessum myndar ekki eignarrétt eða óafturkallanlegt forræði einstakra aðila yfir veiðiheimildum.“

Þetta eru mikilvægir hlutir í þessum vangaveltum sem mig langar að deila með þinginu.

Í stjórnarsáttmálanum segir nefnilega:

„Við endurskoðun laga um veiðigjöld“ — sem við erum að endurskoða núna — „þarf að hafa það meginmarkmið að tryggja þjóðinni réttlátan hlut af arðsemi auðlindarinnar og að þau taki tillit til afkomu.“ — Hér er vissulega verið að taka tillit til afkomu, við skulum ekkert efast um það, en það er spurning hvort verið sé að tryggja þjóðinni réttlátan hlut af arðsemi auðlindarinnar. — „Auðlindagjöld eiga annars vegar að vera greiðsla fyrir aðgang að takmarkaðri auðlind og hins vegar arðgreiðslur af nýtingu hennar.“

Í greinargerðinni er talað um að þetta sé á mörkum skattlagningar og gjalds sem heimt sé af auðlind í eigu þjóðarinnar. Þar er alls ekki kveðið fast á um það að þetta sé gjald sem heimt sé af auðlind í eigu þjóðarinnar. Það er sagt að þetta sé á mörkum þess að vera skattlagning og gjald. Það er ekki alveg samkvæmt stjórnarsáttmálanum, hæstv. forseti, þar sem það er mjög skýrt í markmiðum stjórnarsáttmálans að þetta eigi að vera greiðsla fyrir aðgang og arðgreiðslur af nýtingu auðlindarinnar. Ég sé því ekki alveg að þetta frumvarp nái markmiði stjórnarsáttmálans hvað það varðar.

Mér finnst þetta mikilvæg viðbót í greinargerðinni þar sem fjallað er um að þetta sé að hluta til skattlagning. Rætt hefur verið um það á undanförnum árum að verið sé að reyna að tengja veiðiheimildirnar við eignarréttarákvæði stjórnarskrárinnar. Þeir sem hafa fylgst með því hafa vafalaust orðið varir við þá tilraun sem slíka. Ég met það alla vega svo að þessi setning, og það sem fylgir, þar sem verið er að tengja veiðigjöldin við skattlagningu, sé ákveðin tilraun til að renna stoðum undir þau rök að veiðigjöldin séu með tengingu í stjórnarskrána um eignarréttinn og fari þannig fram hjá lögum um stjórn fiskveiða þar sem úthlutun veiðiheimilda myndar ekki eignarrétt, þrátt fyrir það sem sagt er þar, því að stjórnarskráin er æðri öðrum lögum.

Þetta er það sem mér finnst mikilvægt að segja í þessu samhengi. Alþingi sagði með lögum um stjórn fiskveiða, alls ekki á ótvíræðan hátt heldur á mjög skýran hátt, að úthlutun veiðiheimilda myndi ekki eignarrétt. Eina leiðin til þess að komast fram hjá þeirri skýru ætlun Alþingis — ekki er hægt að losa sig, eftir lagatæknilegum krókaleiðum um að eitthvað annað sem Alþingi hefur sagt í nefndaráliti hér eða hafi komið fram í dómum, undan þeim vilja Alþingis að veiðiheimildirnar séu óafturkallanlegar og myndi ekki eignarrétt nema Alþingi segi það jafn skýrt. Í raun einungis með því að breyta 1. gr. laga um stjórn fiskveiða. Það er ekki verið að gera hérna og þrátt fyrir öll þau rök sem menn virðast vera að reyna að safna upp í þennan sarp — til að nýta í einhvers konar breytingu á því hvað veiðiheimildirnar sjálfar þýða, t.d. með því að aðskilja þær lögum um stjórn fiskveiða, hafa það í sérlögum, að tengja það við eignarréttarákvæði stjórnarskrárinnar — ganga einfaldlega ekki af því að orð og vilji Alþingis er svo skýrt afmarkaður í lögum um stjórn fiskveiða. Ég myndi vilja reyna að fá fleiri til að koma með þá yfirlýsingu í ræðustól Alþingis að það sé algerlega ótvírætt, að það sé engin leið að skilja, eftir lagatæknilegum krókaleiðum, greinargerð frumvarpsins, eða nokkurra annarra frumvarpa sem lögð hafa verið fram, á þann veg að verið sé að reyna að fara fram hjá því sem Alþingi segir um að úthlutun veiðiheimilda myndi ekki eignarrétt eða óafturkallanlegt forræði einstakra aðila yfir veiðiheimildum. Það er tvímælalaust kjarninn í þeirri baráttu sem á sér stað gegn auðlindaákvæði nýju stjórnarskrárinnar, alveg tvímælalaust. Þar er sérstaklega sagt að allt sem ekki sé háð einkaeignarréttarlegum ákvæðum sé í eigu þjóðarinnar. Um leið og búið er að krækja í veiðiheimildirnar í gegnum eignarréttarákvæði núverandi stjórnarskrár er það horfið úr auðlindaákvæði nýju stjórnarskrárinnar. Baráttuna um nákvæmlega það tel ég vera í greinargerð frumvarpsins.

Það er líka mjög oft sagt, meira að segja hér í ræðustól Alþingis, að íslenskur sjávarútvegur sé sá eini sem ekki sé ríkisstyrktur. Mig langar til að kollvarpa þeirri tilgátu. Til að byrja með hafa veiðigjöldin, auðlindagjöldin, verið afkomutengd. Það þýðir að þú getur í raun ekki farið á hausinn. Þú borgar bara auðlindagjöldin af hagnaði sem þú átt eftir. Þá ert þú kominn með ákveðna ríkistryggingu; sama hvernig þér gengur þá ferð þú ekki í mínus, alla vega ekki af völdum hins opinbera. Þó að það geti vissulega verið þungt í vöfum, þú ert ekki með mikið svigrúm, ferðu alla vega ekki í mínus. Að auki gefum við þann kvóta sem úthlutað er á hverju ári til þeirra sem eru með veiðiheimildirnar. Við gefum það á hverju ári. Sú gjöf var búin til einu sinni, fólk fékk hana eftir veiðireynslu og fær síðan fisk úr sjónum gefins endalaust, „infinitum“. Það er ekkert annað en ríkisstyrkur, það er óendanlegur aðgangur að takmarkaðri auðlind, bara út af tímalengdinni. Ef hægt væri, eins og lagt hefur verið til hér, að kaupa sig inn í veiðiheimildirnar, í kvótann, á markaðsforsendum, væri það algjörlega farið. Þá væri ekki um ríkisstyrk að ræða lengur, þá væru menn að kaupa þetta á jafnræðisgrundvelli.

Eins og staða er núna er aðkoma nýliða inn í þessa grein mjög takmörkuð af því að veiðiheimildin er föst; hún er ekkert fljótandi, hún er háð ákvörðun hvers og eins um að selja ef nógu gott tilboð fæst. Undir öllum kringumstæðum, miðað við að veiðiheimildin er óháð tíma, miðað við ákveðnar væntingar, ætti verðið að vera óendanlega hátt. Að sjálfsögðu er ákveðin áhætta fólgin í því að stjórnarfar gæti breyst og aðrar áherslur gætu komið í staðinn. Það var að vissu leyti væntanlega metið inn í áhættu þeirra sem eru að selja veiðiheimildirnar, hversu langan tíma þeir reikna með að geta haft þær veiðiheimildir. Nú þegar er því gert ráð fyrir tímabundinni eign hvað veiðiheimildirnar varðar en það er bara áhættustýring upp á það að gera.

Eftir sem áður er kerfislæga mismununin til staðar. Þannig að þetta er tvennt: Við erum tvímælalaust með ríkisstyrktan sjávarútveg, það þýðir ekkert að neita því. Við þurfum að íhuga mjög vel baráttuna við veiðiheimildirnar og tengingu við eignarréttarákvæði stjórnarskrárinnar í tengslum við auðlindaákvæði nýju stjórnarskrárinnar. Það væri mjög gott að fá hæstv. ráðherra til þess einfaldlega að taka af allan vafa hvað það varðar með þetta frumvarp, þ.e. að ekki sé með nokkru móti, óviljandi eða viljandi, verið að reyna að skapa tengsl við það að hægt sé að túlka þetta frumvarp eða nokkuð í því eða í greinargerð sem rök fyrir því að hægt sé að tengja veiðiheimildir við eignarréttarákvæði stjórnarskrárinnar.