149. löggjafarþing — 45. fundur,  10. des. 2018.

veiðigjald.

144. mál
[21:55]
Horfa

Frsm. meiri hluta atvinnuvn. (Lilja Rafney Magnúsdóttir) (Vg):

Herra forseti. Ég vil við lok þessarar umræðu þakka fyrir þá umfjöllun sem hefur orðið í 3. umr. um frumvarp um veiðigjöld. Það sem mér finnst standa upp úr við 3. umr. er að efnislega eru menn ekki að gagnrýna innihald frumvarpsins heldur er frekar verið að ræða það að gera breytingar á lögum um stjórn fiskveiða, sem er annað mál, og eðlilegt að menn hafi mismunandi skoðanir á því.

Í umræðunni hefur komið upp nýfallinn dómur Hæstaréttar varðandi úthlutun aflaheimilda á makríl árið 2012 og því blandað saman við, hvort einhver vafi leiki á því að nytjastofnar séu sameign þjóðarinnar. Ég tel að lög um stjórn fiskveiða og 1. gr. þeirra laga um að nytjastofnar á Íslandsmiðum séu sameign þjóðarinnar, séu afdráttarlaus og enginn vafi leiki á því að þau lög standa fyrir sínu. En ég, ásamt fleirum í þessum þingsal, vil gjarnan að við náum saman um að setja auðlindaákvæði í stjórnarskrá og það er mjög brýnt.

Ég sat í sáttanefnd um skoðun á því hvernig væri hægt að breyta lögum um stjórn fiskveiða á sínum tíma árið 2012 og kallaði eftir lögfræðiáliti frá hæstaréttarlögmanni, sem var þá Magnús Thoroddsen, og það lögfræðiálit stendur fyrir sínu. Þar kemur fram að réttindi til þess að nýta aflaheimildir og aflamark innan árs eru veitt til eins árs í senn, þ.e. fiskveiðiárið sem eru 12 mánuðir. Í mínum huga er því enginn vafi um að nytjastofnar á Íslandsmiðum séu sameiginleg eign þjóðarinnar. Það er bara mjög eðlilegt að við ræðum það í þessum þingsal, en það á ekki endilega heima varðandi þetta mál sem hér liggur fyrir og hefur fengið mjög mikla og efnislega umræðu. En brýnt er að ný lög taki gildi um áramót þar sem þau lög sem núna eru í gildi varðandi veiðigjöld renna út um áramótin.

En ég legg til að málið fái jákvæða afgreiðslu í þinginu í framhaldi af 3. umr. og þakka þeim sem tóku til máls um það og lögðu sitt af mörkum til að þingið gæti fjallað sem best um þetta stóra og mikilvæga mál.