149. löggjafarþing — 45. fundur,  10. des. 2018.

veiðigjald.

144. mál
[22:04]
Horfa

Frsm. meiri hluta atvinnuvn. (Lilja Rafney Magnúsdóttir) (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Það kom skýrt fram hjá fulltrúum ríkisskattstjóra að embættið treysti sér til að framkvæma þessi lög svo þau gengju snurðulaust fyrir sig. Ef hv. þingmaður hefur talið að ekki væri hægt að treysta þeim orðum hefði verið eðlilegt að leggja fram breytingartillögu sem sneri að þessu máli.

Varðandi það að vinnslan er tekin út, sem var auðvitað skýrt vel í frumvarpinu hvers vegna var, eru til útgerðir sem eru ekki með neina vinnslu og það skekkti umhverfi þeirra og annarra varðandi álagningu veiðigjalds að blanda því saman. Það var mjög ósanngjarnt gagnvart þeim útgerðum sem ekki voru í vinnslu. Ég tel að ef hv. þingmenn hefðu haft efnislega athugasemd við þær breytingar og treystu sér ekki til að styðja það efnislega að sú breyting væri gerð og gætu ekki kyngt þeim rökum sem fylgdu því hefði auðvitað átt að fylgja því eftir með tillögum sem sneru að þessum tveim þáttum. Það hefði verið mjög eðlilegt að gera það.

Við fengum svör hjá gestum og svör við því hvort embættið treysti sér til að vinna með þetta mál og það taldi sig gera það. Þá taldi ég að menn hefðu haft sannfæringu fyrir því að það væri hægt að treysta embættinu til að vinna með þetta mál eins og gefið var út af þess hálfu. Af þeim sökum sagði ég að ekki hefði komið nein niðurstaða og ekki verið efnisleg gagnrýni nema sem hefði verið svarað innan nefndarinnar.