149. löggjafarþing — 45. fundur,  10. des. 2018.

veiðigjald.

144. mál
[22:10]
Horfa

Björn Leví Gunnarsson (P) (andsvar):

Virðulegur forseti. Svo ég afgreiði hitt snögglega þá er búið að svara því. Í þessu frumvarpi segir sérstaklega að veiðigjaldið sé lagt á, með leyfi forseta, „í þeim tilgangi að mæta kostnaði ríkisins við rannsóknir, stjórn, eftirlit og umsjón með fiskveiðum og fiskvinnslu og til að tryggja þjóðinni í heild beina og sýnilega hlutdeild í afkomu við veiðar á nytjastofnum sjávar“.

Þá ber augljóslega að spyrja: Verður þetta skip greitt með veiðigjöldunum? Það eru vissulega 6–7 milljarðar þarna, en það er ákveðinn rekstur sem þarf að standa undir að auki. Það er viljandi verið að minnka afkomuna og formaður atvinnuveganefndar segir hérna að kannski verði afkoman í plús eða mínus árið 2020, en það virðist vera alveg óljóst, sem er mjög áhugavert. Byggjum við ekki á einhvers konar spá um það hvernig þessi veiðigjöld þróast til framtíðar? Væri það ekki mjög eðlilegt, ef við setjum svona lög, að við værum með alla vega fimm ára sýn á það hvernig þetta mun þróast? Það er takturinn sem við erum að vinna með fjármálaáætlun til fimm ára til að sjá hvernig tekjurnar þróast af mismunandi tekjustofnum okkar.

Núna erum við að setja ný lög, erum með nýja útreikninga, og við vitum ekki hvernig þetta verður 2020, samkvæmt orðum hv. formanns atvinnuveganefndar. En þá spyr ég einfaldlega aftur: Mun kostnaðurinn af smíði hafrannsóknaskipsins verða fjármagnaður með veiðigjöldum, samanber 1. gr. þessara laga?