149. löggjafarþing — 45. fundur,  10. des. 2018.

veiðigjald.

144. mál
[22:12]
Horfa

Frsm. meiri hluta atvinnuvn. (Lilja Rafney Magnúsdóttir) (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég get ekki annað en brosað hér í lokin hvað varðar fyrirsjáanleikann því að samkvæmt tillögu minni hlutans um veiðigjald, breytingartillögu sem var rædd hér milli 2. og 3. umr., þá hefðum við ekki haft grænan grun um eftir hvaða lögum um veiðigjald við værum að vinna eftir 2020 (BLG: Ég var að spyrja þig.)(Gripið fram í: … tillögur.) Nýjar tillögur. Við hefðum ekki haft grænan grun um það, svo að ég vísi ábyrgðinni til föðurhúsanna hvað varðar fyrirsjáanleika. En ég verð að treysta því að formenn allra stjórnmálaflokka sem gáfu fyrirheit um að fjármagna hafrannsóknaskip á fullveldisafmælinu á Þingvöllum í sumar séu allir menn orða sinna og það verði séð fyrir því að það verði fjármagnað. Ég treysti því. Þar á meðal var fulltrúi Pírata sem skrifaði upp á það. Ég hef ekki áhyggjur af því að það standist ekki að það verði gjöf Alþingis til þjóðarinnar að fjármagna nýtt hafrannsóknaskip.

Síðan tel ég að það verði enn og aftur að vekja athygli hv. þingmanns og annarra á því að með þessu frumvarpi, sem vonandi verður samþykkt á morgun, erum við að afkomutengja veiðigjöld og fyrirsjáanleikinn er auðvitað sá að þau geta hækkað, þau geta lækkað eftir afkomu greinarinnar. Þannig höfum við öll, eða flest okkar, talað hér í þingsal, að þetta endurspegli afkomu greinarinnar. Það er auðvitað mjög mikilvægt hjá þessari mikilvægu grein að hún haldi áfram að vaxa og dafna og styrki byggð og búsetu í landinu og skapi gjaldeyristekjur fyrir þjóðina sem við nýtum okkur.