149. löggjafarþing — 45. fundur,  10. des. 2018.

heilbrigðisþjónusta o.fl.

185. mál
[22:42]
Horfa

Frsm. minni hluta velfn. (Halldóra Mogensen) (P) (andsvar):

Forseti. Mér skilst af þeim svörum sem ég fékk frá Öryrkjabandalagi Íslands og Samtökum fyrirtækja í velferðarþjónustu að þetta samráð hafi í raun verið bara eins og samráð á sér oft stað, því miður. Það er meira þannig að fólk viðrar skoðanir sínar, það er hlustað á það en svo eru ekki alveg teknar til greina þær athugasemdir sem eru komnar og unnið að því að komast að einhverjum málamiðlunum hvað það varðar. Það voru upplýsingarnar sem ég fékk.

Aftur á móti athugaði ég það sérstaklega hjá Öryrkjabandalaginu hvort þar væri sátt með þetta frumvarp. Svo er ekki. Þar hafa þau miklar áhyggjur af því að við séum að taka skref í vitlausa átt, að við séum að fara aftur á bak. Ástæðan fyrir því er eins og ég minntist á í ræðu minni að það er kvóti á notendastýrða persónulega aðstoð sem þýðir að aðilar sem vilja nýta sér NPA-þjónustu fá hana ekki vegna þess að það er ekki fjármagn til þess eða sveitarfélagið hefur ekki burði til þess. Þá eru áhyggjur af því að einstaklingar verði að nýta sér dagdvöl, dvalarrými eða önnur stofnanaúrræði í staðinn fyrir að fá NPA-þjónustu.

Það er ástæðan fyrir því að við í minnihlutaálitinu getum ekki samþykkt þetta frumvarp.