149. löggjafarþing — 45. fundur,  10. des. 2018.

heilbrigðisþjónusta o.fl.

185. mál
[22:43]
Horfa

Frsm. meiri hluta velfn. (Ólafur Þór Gunnarsson) (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni svörin. Það er alveg rétt sem kemur fram hjá þingmanninum, það er ekki alltaf farið eftir þeim ábendingum sem koma fram í samráði eins og af sjálfu leiðir, samráð þýðir ekki að annar aðilinn taki algjörlega yfir verkefnið. Hins vegar sjáum við á umsögninni frá Þroskahjálp að það er miklu jákvæðari blær yfir henni en var síðasta vor og þar er eiginlega ýtt undir að við reynum frekar að tryggja í allri framkvæmd á lögunum að ekki sé verið að misnota þetta úrræði og, eins og menn hafa sagt, ýta undir að yngra fólk fari inn á hjúkrunarheimili, heldur fyrst og fremst til að reyna að nota það sem neyðarúrræði. Við erum alveg sammála þessu og tökum undir það í áliti meiri hlutans.

Varðandi NPA sem þingmaðurinn hefur nefnt nokkuð má ekki gleyma því að síðasta vor opnuðum við einmitt á það að eldri einstaklingar gætu fengið að njóta NPA alveg eins og yngri einstaklingar. Því má að vissu leyti segja að á sama hátt séum við með þessu frumvarpi að gefa yngri einstaklingum tækifæri til að nota sér alla þá þjónustu sem kerfið býður upp á en ekki bara einhverja tiltekna þjónustu. Ég held að það sé mikilvægt.

Að lokum varðandi það sem þingmaðurinn sagði um þá framtíðarsýn að við eigum ekki að vera að nota stofnanaúrræði bregst þetta frumvarp við vanda einstaklinga sem eru í vanda núna (Forseti hringir.) en ekki í framtíðinni.