149. löggjafarþing — 45. fundur,  10. des. 2018.

heilbrigðisþjónusta o.fl.

185. mál
[22:46]
Horfa

Frsm. minni hluta velfn. (Halldóra Mogensen) (P) (andsvar):

Forseti. Ég geri mér grein fyrir því að þetta frumvarp bregst við einstaklingum sem eru í vanda núna. Ástæðan fyrir því að það er verið að bregðast við vanda og að til staðar er vandi er sá að það er kvóti á notendastýrðri persónulegri aðstoð. Ég er búin að vera að segja þetta, ég þarf bara að segja þetta aftur. [Hlátur í þingsal.] Ég veit að það er verið að hugsa til þess að á sínum tíma þegar við fórum yfir þessi mál í velferðarnefnd og við vorum að tala um þetta — ég talaði mjög mikið um þennan kvóta og að hann ætti ekki að vera til staðar en það var hræðsla við að fara þá leið að hafa þetta algjörlega opið út af kostnaði sem var ekki hægt að sjá fram á hvað yrði mikill. Það var vilji til að taka styttri skref til að reyna þetta og það varð niðurstaðan. Sú niðurstaða hefur þær afleiðingar að aðilar fá ekki þá aðstoð sem þeir þurfa á að halda og þess vegna er verið að bregðast við með þessu frumvarpi.

Þannig skil ég þetta. Gagnrýni okkar í minni hlutanum er að þetta er röng nálgun. Ég held að þetta sé bara eins og hv. þingmaður sagði hérna áðan, að við erum einfaldlega ósammála.