149. löggjafarþing — 45. fundur,  10. des. 2018.

heilbrigðisþjónusta o.fl.

185. mál
[22:47]
Horfa

Guðjón S. Brjánsson (Sf):

Frú forseti. Við ræðum hér nefndarálit frá meiri hluta og minni hluta velferðarnefndar um frumvarp til laga um breytingu á lögum um heilbrigðisþjónustu, lögum um málefni aldraðra og lögum um sjúkratryggingar. Þar ber hæst dvalarrými og dagdvöl. Ég er einn þeirra sem styðja minnihlutaálit nefndarinnar, en ég vil geta þess að í nefndinni átti sér stað yfirveguð, uppbyggileg og ágæt umræða um málefnið og um flest erum við sammála. Um markmiðin erum við sammála, velferð, bæði eldri borgara og fólks með fötlun.

Afstaða mín er fólgin í því að ég tel ástæðu til þess að við notum hvert tækifæri til að lýsa því yfir að við eigum að hverfa af þeirri braut sem við höfum fylgt í áratugi og er stefna sem tilheyrir horfnum tíma, horfinni öld. Við getum hvert og eitt okkar horft í eigin barm og spurt: Eru þeir valkostir sem fyrst og fremst eru í boði í dag valkostir sem við munum una sæl og sátt við þegar kemur að því að við þurfum hugsanlega á stuðningi að halda á efri árum eða ef við verðum fyrir því fatlast?

Í þessari litlu breytingu á lögunum sem virðist vera svo, en eins og flutningsmaður meiri hlutans nefndi þá lætur þetta frumvarp svo sem ekki mikið yfir sér, er fólgin ákveðin yfirlýsing um að við ætlum ekkert að hverfa frá þessari leið í bráð. Það er verið að lækka aldur þeirra sem eiga möguleika á því að fara inn í dvalarrými og inn í dagdvöl. Þetta kann að vera alhæfing, en við skulum þá fjalla nánar um það.

Í hjúkrunarrýmum hefur verið lögfest að búið geti einstaklingar sem eru yngri en 67 ára og menn vildu færa þetta til samræmis í dvalarrýmunum. Það hefði verið ákjósanlegra ef við hefðum séð merki þess hjá núverandi ríkisstjórn að ný hugsun væri að fæðast með stjórnvöldum, að bjóða upp á fleiri valkosti, bjóða upp á fleiri möguleika þess að fólk geti búið sjálfstæðu búi lengur, að það hefði verið sett fé, sérstaklega eyrnamerkt, í það að efla heimahjúkrun í raun, efla heimaþjónustu og stuðning inn á heimili, en því er ekki fyrir að fara að því er séð verður.

Við höfum auðvitað lögfest notendastýrða persónulega aðstoð. Það er spor í rétta átt og það er ánægjulegt skref sem við fögnum. Þeir samningar hafa auðvitað sín takmörk en það er fullur vilji og staðfastur ásetningur okkar að fjölga þeim samningum. Við teljum að þjónusta í þá veru muni breiðast út og verði miklu affarasælli þegar við stígum lengra inn í þessa öld.

Það sem réði líka nokkru varðandi mína afstöðu var afstaða Sambands íslenskra sveitarfélaga sem hafði ekki fulla sannfæringu fyrir því að nægilega vel væri búið um hnútana og sömuleiðis telja Samtök fyrirtækja í velferðarþjónustu ekki vera nægilega tryggt að biðlistar lengdust ekki.

Við erum sem sagt enn í þeim fasa að einblína á stofnanir, en við eigum að fara að huga að miklu fleiri valkostum og við hefðum kosið það að merkin væru greinilegri í fjármálaáætlun þeirri sem nú liggur fyrir.