149. löggjafarþing — 45. fundur,  10. des. 2018.

heilbrigðisþjónusta o.fl.

185. mál
[22:55]
Horfa

Guðjón S. Brjánsson (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir fyrri spurninguna. Það er ekkert algilt í tilverunni, ekkert absalútt. Auðvitað er maður í vafa. Við þekkjum aðstæður í landinu, þær eru mismunandi eftir því hvort við búum í sveit eða í borg. Úti á landi eru úrræðin ekki mörg og þess vegna hefur þessi kostur verið valinn, m.a. hefur það snúið að yngra fólki. Eini kosturinn hefur þá verið: Viltu þetta búsetuform eða viltu flytja búferlum frá þínum heimahögum? Fólk hefur verið sett í þessa aðstöðu. En þegar allt er tiltekið finnst mér að við eigum að lúta þessum viðhorfum sem ganga út á það að skapa fólki möguleika til sjálfstæðrar búsetu umfram alla aðra kosti ef það er því hagfellt eða ef það er raunhæft. En það er ekki alltaf raunhæft.

Ég er sammála hv. þingmanni um að við eigum að ramma gjörðir okkar inn í lög, þetta á að vera bundið í lögum. Eins og hv. þingmaður kom inn á erum við kannski ekki að tala um mjög stóran hóp. En við búum bara við þetta. Öryrkjar og fólk með fötlun treystir ekki á að þessu verði ekki misbeitt eða þetta misnotað á kostnað þess að NPA verði fyrsti valkostur, að sveitarfélögin eða þeir sem véla með fjármál að þeir grípi ekki fyrst til þess (Forseti hringir.) valkostar sem er nærtækastur, sem er hugsanlega dvalarstofnun sem þegar er til í byggðarlaginu.