149. löggjafarþing — 45. fundur,  10. des. 2018.

heilbrigðisþjónusta o.fl.

185. mál
[22:57]
Horfa

Frsm. meiri hluta velfn. (Ólafur Þór Gunnarsson) (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Nú veit hv. þingmaður að það er ekki á valdi sveitarfélaga að ákveða með búsetu, hvorki í dvalar- eða hjúkrunarrýmum. Sú ákvörðun fer ekki fram á vettvangi sveitarfélaga heldur hjá færni- og heilsumatsnefndum heilbrigðisumdæma út um landið. Það kann vel að vera að í einhverjum tilfellum vakni sú hugmynd hjá sveitarfélagi, til að losna við þann kostnað, skulum við segja, sem getur hlotist af umtalsverðri þjónustu, að beina einhverjum einstaklingi í dvalarrými. En ákvörðunin um það er ekki hjá sveitarfélaginu, hún er annars vegar hjá einstaklingnum og hins vegar hjá nefndinni sem metur þörfina. Það er þingmanninum kunnugt um, veit ég.

Ég er, eins og ég hef ítrekað sagt, í grunninn sammála þingmanninum um mjög margt í þessum málaflokki. Mig langar því að nefna að ef við ætluðum að fara eftir nefndaráliti minni hlutans, eins og það kemur fyrir, mætti þess vegna segja að maður væri hissa á því að ekki komi breytingartillaga frá minni hlutanum um að fella úr gildi heimildina fyrir yngri en 67 ára hvað varðar hjúkrunarrýmin. Er það ekki sama hugsunin? Þar erum við að tala um miklu fleiri einstaklinga. Mér finnst þarna vera ákveðin ósamkvæmni. Mér finnst að menn verði að hugsa til enda þær vangaveltur sem þeir eru með í þessum efnum. Við erum í alvöru að tala um einstaklinga sem eru í þörf núna, ekki á morgun og ekki hinn heldur núna. Þá finnst mér það ákveðin léttúð, liggur mér við að segja, að segja: Nei, við skulum bara ekkert vera að samþykkja þetta.