149. löggjafarþing — 45. fundur,  10. des. 2018.

heilbrigðisþjónusta o.fl.

185. mál
[23:08]
Horfa

Bryndís Haraldsdóttir (S):

Virðulegur forseti. Ég biðst eiginlega afsökunar á því að tala svona seint, en ég bara get ekki látið hjá líða að tjá mig örlítið. Ég lofa að tala mjög stutt.

Ástæðan er fyrst og fremst sú að ég á rosalega erfitt með þetta mál. Ég hef um tíma verið mótfallin því að lögunum hafi verið breytt á sínum tíma hvað hjúkrunarheimilin varðar vegna þess að ég hef hreinlega horft upp á ungt fólk búa á hjúkrunarheimili. Og þrátt fyrir að aðbúnaður sé allur æðislegur og starfsfólk allt af vilja gert, þá er rosalega erfitt oft mæta félagslegri þjónustu fyrir ungt fólk á hjúkrunarheimilum. Ég átta mig samt sem áður á því að aðstæður eru breytilegar og eins og hv. þm. Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir sagði, sem talaði hér á undan mér, þá eru aðstæður oft með því móti að þetta kann að vera besta leiðin. Þannig að ég er alls ekki mótfallin þessu frumvarpi.

Mér finnst líka mikilvægt að það komi fram hérna út frá umræðunni áðan að Samband íslenskra sveitarfélaga tekur undir það sé ástæða til að samþykkja þessi lög, en það ítrekar jafnframt mikilvægi þess að horft sé á þennan málaflokk heildstætt. Það er kannski fyrst og fremst það sem ég vil leggja áherslu á. Oft eru aðstæður með þeim hætti að þetta er besta lausnin fyrir viðkomandi einstaklinga, en ég held samt sem áður, því miður, að við séum stundum með aðila í þessari þjónustu hér á höfuðborgarsvæðinu sem myndi henta betur sérstök úrræði fyrir yngri einstaklinga.

Ég vil bara hvetja okkur áfram í því að við horfum heildstætt á þetta. Það er örugglega full ástæða til þess að bregðast við því sem er verið að bregðast við í frumvarpinu, en við þurfum líka að hugsa lengra og fyrst og fremst út frá þörfum einstaklingana. Þetta á að vera einstaklingsmiðuð þjónusta óháð aldri.