149. löggjafarþing — 45. fundur,  10. des. 2018.

atvinnuleysistryggingar o.fl.

300. mál
[23:10]
Horfa

Frsm. velfn. (Halla Signý Kristjánsdóttir) (F):

Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir nefndaráliti frá velferðarnefnd um breytingu á lögum um atvinnuleysistryggingar, lögum um Ábyrgðasjóð launa, lögum um fæðingar- og foreldraorlof, lögum um greiðslur til foreldra langveikra eða alvarlega fatlaðra barna og lögum um réttindi lifandi líffæragjafa til tímabundinnar fjárhagsaðstoðar (framlag í lífeyrissjóð).

Eins og segir í greinargerð með frumvarpinu er markmið þess m.a. að draga úr áhrifum á ávinnslu lífeyrisréttinda hjá þeim einstaklingum sem hverfa tímabundið af vinnumarkaði og nýta rétt sinn til greiðslna úr Atvinnuleysistryggingasjóði vegna atvinnumissis, Fæðingarorlofssjóði vegna fæðingarorlofs eða ríkissjóði vegna umönnunar langveikra og alvarlega fatlaðra barna og vegna líffæragjafar. Þykir nauðsynlegt að bregðast við samkomulagi Alþýðusambands Íslands og Samtaka atvinnulífsins með því að hækka til samræmis við samkomulagið það hlutfall af greiðslum til einstaklinga úr Atvinnuleysistryggingasjóði, Fæðingarorlofssjóði og ríkissjóði í þeim tilvikum þegar um er að ræða greiðslur til foreldra langveikra eða alvarlega fatlaðra barna eða greiðslur til líffæragjafa sem umræddum kerfum er gert að greiða sem mótframlag í lífeyrissjóði við það hlutfall af launum launafólks sem atvinnurekendum er skylt að greiða sem mótframlag í lífeyrissjóð samkvæmt fyrrnefndu samkomulagi. Tilgangur frumvarpsins er jafnframt að tryggja að ábyrgð Ábyrgðasjóðs launa vegna krafna lífeyrissjóða um lífeyrisiðgjöld nái yfir það framlag sem hlutaðeigandi atvinnurekendum hefði borið að greiða í lífeyrissjóði samkvæmt samkomulaginu sem og yfir þann hluta af launum launafólks sem því sjálfu hefur borið að greiða í lífeyrissjóði hefði ekki komið til gjaldþrots hlutaðeigandi atvinnurekenda.

Nefndin tók þetta fyrir og fékk nokkrar umsagnir og kallaðir voru til gestir. Meðal annars kom umsögn frá Sambandi íslenskra sveitarfélaga þar sem segir, með leyfi forseta:

„Samband íslenskra sveitarfélaga telur lögfestingu frumvarpsins vera til þess fallna að stuðla að bættum Iífeyrisrétti þeirra einstaklinga sem fá greiðslur á grundvelli viðkomandi laga, til jafns við almenna launþega. Sambandið ítrekar þó fyrri umsögn, um drög að umræddu frumvarpi, um að ekki er rökrétt að frumvarp um þetta efni verði lagt fram á Alþingi nema jafnframt verði lagt fram frumvarp um breytingar á almennu framlagi vinnuveitenda í lífeyrissjóði.“

Aftur að nefndarálitinu. Nefndin fjallaði um málið og fékk gesti frá Alþýðusambandi Íslands, Samtökum atvinnulífsins, Vinnumálastofnun og velferðarráðuneytinu. Umsagnir bárust frá Alþýðusambandi Íslands, Bandalagi háskólamanna, Jafnréttisstofu, Sambandi íslenskra sveitarfélaga og Samtökum atvinnulífsins.

Eins og fyrr segir er markmið frumvarpsins, líkt og nánar er rakið í greinargerð, að draga úr áhrifum á ávinnslu lífeyrisréttinda hjá þeim einstaklingum sem hverfa tímabundið af vinnumarkaði og nýta rétt sinn til greiðslna úr Atvinnuleysistryggingasjóði vegna atvinnumissis, Fæðingarorlofssjóði vegna fæðingarorlofs eða ríkissjóði vegna umönnunar langveikra eða alvarlega fatlaðra barna eða vegna líffæragjafar. Mælir frumvarpið m.a. fyrir um hækkun á mótframlagi í lífeyrissjóði fyrir þá sem hverfa af atvinnumarkaði af framangreindum orsökum úr 8% í 11,5%.

Í umsögnum um málið kom fram það sjónarmið að nauðsyn væri á víðtækri endurskoðun á heildarlöggjöf um iðgjald til lífeyrissjóða og á almennum lögum um lífeyrissjóði. Nefndin beinir því til fjármála- og efnahagsráðherra að flýta vinnu við þá endurskoðun. Að framangreindu virtu leggur nefndin til að frumvarpið verði samþykkt óbreytt. Hv. þm. Vilhjálmur Árnason var fjarverandi við afgreiðslu málsins. Hv. þm. Hanna Katrín Friðriksson, áheyrnarfulltrúi í nefndinni, er samþykk þessu áliti. Undir álitið skrifa framsögumaður, Halla Signý Kristjánsdóttir, sem hér stendur, Halldóra Mogensen, Ólafur Þór Gunnarsson, Ásmundur Friðriksson, Andrés Ingi Jónsson, Anna Kolbrún Árnadóttir, Guðjón S. Brjánsson og Guðmundur Ingi Kristinsson.

Svo mörg voru þau orð. Ég ætla ekki að hafa þetta lengra, ég held að þetta sé nokkuð skýrt. Nefndin leggur sem sagt til að frumvarpið verði samþykkt óbreytt en eins og sagt er beini ég því til hæstv. fjármála- og efnahagsráðherra að hraða endurskoðun almennra laga um þetta efni.