149. löggjafarþing — 45. fundur,  10. des. 2018.

tekjuskattur og stuðningur við nýsköpunarfyrirtæki.

301. mál
[23:17]
Horfa

Frsm. efh.- og viðskn. (Bryndís Haraldsdóttir) (S):

Virðulegi forseti. Ég mæli hér fyrir nefndaráliti um breytingu á lögum um tekjuskatt og lögum um stuðning við nýsköpunarfyrirtæki, skattfrádráttur vegna hlutabréfakaupa og skattfrádráttur vegna nýsköpunarfyrirtækja.

Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Steinar Örn Steinarsson frá fjármála- og efnahagsráðuneyti, Eddu Símonardóttur frá tollstjóra, Ingvar J. Rögnvaldsson, Elínu Ölmu Arthursdóttur og Jón Ásgeir Tryggvason frá ríkisskattstjóra, Bergþóru Halldórsdóttur frá Samtökum atvinnulífsins, Sigríði Mogensen frá Samtökum iðnaðarins og Gunnar Dofra Ólafsson og Ísak Einar Rúnarsson frá Viðskiptaráði Íslands. Einnig bárust nefndinni erindi um málið frá fjármála- og efnahagsráðuneyti, Kauphöll Íslands hf., ríkisskattstjóra, Samtökum íslenskra leikjafyrirtækja, Samtökum iðnaðarins og Viðskiptaráði Íslands.

Með frumvarpinu eru lagðar til breytingar á ákvæðum laga um tekjuskatt, nr. 90/2003, til að framlengja úrræði er varðar skattfrádrátt vegna hlutabréfakaupa og fækka og einfalda skilyrði sem bæði einstaklingar og félög þurfa að uppfylla þegar einstaklingar hyggjast nýta sér frádráttinn. Þá eru jafnframt lagðar til breytingar á lögum um stuðning við nýsköpunarfyrirtæki, nr. 152/2009, um að hækka hámark viðmiðunarfjárhæða skattfrádráttar vegna rannsóknar- og þróunarkostnaðar styrkhæfra fyrirtækja.

Í þeim umsögnum sem nefndinni bárust sem og meðal gesta á fundum nefndarinnar var almennt lýst stuðningi við framgang frumvarpsins. Einkum var talið til bóta að skilyrði til að nýta sér skattfrádrátt vegna hlutabréfakaupa væru rýmkuð en samkvæmt frumvarpinu fellur m.a. brott það skilyrði að einstaklingur sem nýtir sér úrræðið megi ekki vera starfsmaður viðkomandi félags. Fram komu ábendingar um að ganga mætti enn lengra og fella jafnframt brott skilyrði um að einstaklingur sem nýti heimildina megi ekki vera stjórnarmaður í viðkomandi félagi eða tengdur stjórnarmanni fjölskylduböndum enda skorti málefnaleg rök að baki þeirri reglu. Nefndin tekur undir þessa ábendingu og leggur til breytingu á frumvarpinu í þá veru að stjórnarmönnum í félögum verði heimilt að nýta úrræðið.

Töluverð umræða fór fram í nefndinni um ástæðu þess að sá hvati sem felst í skattafslætti við hlutabréfakaup hafi í gildandi lögum ekki verið hugsaður til að hvetja starfsmenn til að kaupa hlutabréf í fyrirtækjum sem þeir starfa hjá. Þar hafi m.a. ráðið för sjónarmið um að verja starfsmenn fyrir hugsanlegri misnotkun atvinnurekanda. Hagaðilar mæla þó með því að skilyrðin séu rýmkuð og fellst nefndin á þau sjónarmið eins og framar greinir.

Við umfjöllun nefndarinnar átti sér stað nokkur umræða um að hámarkskostnaður til útreiknings á frádrætti frá tekjuskatti hækkaði ef fyrirtæki notaðist við aðkeypta sérfræðiþjónustu. Snerist umræðan m.a. um hvort sá hvati væri réttmætur eða hvort eðlilegra væri að miða við hærra þakið án kvaða um aðkeypta þjónustu. Í minnisblaði sem ráðuneytið sendi nefndinni kom fram að fyrirkomulagið mætti rekja til norskrar fyrirmyndar og að ekki væri vitað til að það hefði sætt gagnrýni. Hjá þeim hagsmunaaðilum sem nefndin ræddi við kom jafnframt fram að tilhögunin hefði ekki teljandi áhrif. Mun nefndin því ekki leggja til breytingu á því að svo stöddu en hvetur til þess að vel sé fylgst með því hvernig þessir hvatar nýtast til að auka rannsóknir, þróun og nýsköpun í íslensku atvinnulífi.

Samkvæmt 2. mgr. 17. gr. laga um stuðning við nýsköpunarfyrirtæki, nr. 152/2009, falla lögin úr gildi 31. desember 2019. Þrátt fyrir að ljóst sé að stefna stjórnvalda sé að stuðningur við nýsköpunarfyrirtæki sé varanlegt úrræði hefur ákvæðið sætt gagnrýni, m.a. þar sem það takmarki fyrirsjáanleika fyrir þau fyrirtæki sem treysta á úrræðið. Í reglugerð ESB nr. 651/ 2014 um almenna hópundanþágu, GBER, er m.a. kveðið á um skilyrði þess að veita megi fyrirtækjum ríkisaðstoð á tilteknum sviðum án þess að leita þurfi eftir sérstöku samþykki Eftirlitsstofnunar EFTA. Íslensk löggjöf verður að taka mið af reglugerðinni en hún fellur úr gildi 2020, sem er ástæðan fyrir því að gildistími laga nr. 152/2009 var takmarkaður. Þrátt fyrir þetta leggur nefndin til að 2. mgr. 17. gr. laganna falli brott enda má telja yfirgnæfandi líkur á að íslenskum stjórnvöldum verði eftir sem áður heimilt að veita þá ríkisaðstoð sem kveðið er á um í lögunum. Fari málin á annan veg verður löggjafinn að grípa til viðeigandi ráðstafana þegar þar að kemur. Nefndin telur þessa aðgerð samræmast þeirri skýru stefnu íslenskra stjórnvalda að styðja við nýsköpun, rannsóknir og þróun sem endurspeglast m.a. í fjármálaáætlun til ársins 2023.

Nefndin telur frumvarp þetta til bóta og í samræmi við stefnu stjórnvalda um að auka stuðning við rannsóknir og tækniþróun nýsköpunarfyrirtækja á Íslandi. Að framangreindu virtu leggur nefndin til að frumvarpið verði samþykkt með þeim breytingum sem ég hef farið hér yfir.

Oddný G. Harðardóttir skrifar undir álit þetta með fyrirvara þar sem hún telur að betur hefði þurft að kanna og taka afstöðu til sjónarmiða sem mæla gegn því að starfsmanni standi til boða að nýta afsláttarúrræðið sem kveðið er á um í B-lið 1. mgr. 30. gr. laga um tekjuskatt við kaup á hlutabréfum í félagi sem hann starfar hjá.

Smári McCarthy og Sigmundur Davíð Gunnlaugsson voru fjarverandi við afgreiðslu málsins.

Ólafur Ísleifsson, áheyrnarfulltrúi í nefndinni, er samþykkur þessu áliti.

Undir þetta álit skrifa auk mín hv. þm. Óli Björn Kárason, formaður nefndarinnar, Brynjar Níelsson, Oddný G. Harðardóttir, með þeim fyrirvara sem áður er lesinn, Ásgerður K. Gylfadóttir, Þorsteinn Víglundsson og Ólafur Þór Gunnarsson.

Virðulegur forseti. Nefndarálitið hljóðar með þessum hætti og ég held að það sé óhætt að segja að það hafi ríkt mikill einhugur í nefndinni um mikilvægi þess að afgreiða þetta mál. Það var líka mjög áhugavert að taka á móti þeim gestum sem til okkar komu og lesa þær umsagnir sem bárust nefndinni, en eins og fram hefur komið voru allir umsagnaraðilarnir mjög jákvæðir. Þær ábendingar sem bárust voru þá kannski helst á þá leið að við ættum að ganga enn lengra og nefndin tók tillit til þess, annars vegar er varðar stjórnarmennina. Það er auðvitað mjög algengt hjá nýsköpunarfyrirtækjum að leitað sé til stjórnarmanna og starfsmanna um fjárfestingu og líka eðlilegt að þessir aðilar hafi áhuga á því að fjárfesta í nýsköpunarfyrirtækjum þar sem þeir hafa trú á því sem þar fer fram. Nefndin féllst á þá breytingu að taka þetta út og útvíkka ákvæðið þannig að stjórnarmönnum sé líka heimilt að fjárfesta.

Hins vegar er það breyting á endurgreiðslunni eða skattfrádrættinum vegna rannsókna og þróunar. Eins og segir í nefndarálitinu er um að ræða tvö þök, ef svo mætti að orði komast. Við erum sem sagt að fara úr 300 milljónum í 600 milljónir og úr 450 í 900 milljónir. Þetta þýðir að fyrirtæki geta þá að hámarki fengið endurgreiddar eða fengið skattafslátt upp á 900 milljónir þegar verkefnið uppfyllir þau skilyrði að vera sérstakt rannsóknar- og þróunarverkefni í nýsköpunarfyrirtæki. Það þýðir að 600 milljónir af þessum fjármunum geta verið innan húss, starfsmannakostnaður sem fellur til innan húss, en viðbæturnar, þessar 300 milljónir sem bætast við, eru þá aðkeypt þjónusta.

Ég hafði sjálf fengið, virðulegur forseti, ábendingar um að einhverjum fyndist þetta ósanngjarnt og kannski væri óeðlilegt að löggjafinn væri með þessu að stýra fyrirtækjunum í þá átt að kaupa frekar þjónustu frá utanaðkomandi aðilum. Það gæti jafnvel verið rangur hvati í því. Þeir sem skiluðu nefndinni umsögn komu ekki inn á þetta atriði. Þeir voru flestir áfjáðir í að við afgreiddum þetta og það væri mjög mikilvægt að við myndum afgreiða þetta núna fyrir áramótin, fólk lagði mikla áherslu á það. En eins og við nefnum í álitinu þá held ég að sé full ástæða til að fylgjast með nákvæmlega þessu til að vita hvort það sé ástæða til að bregðast við því síðar. Það er vissulega jákvætt og getur verið jákvætt að hvetja fyrirtæki til að leita til háskólasamfélagsins eða rannsóknarstofnana eða jafnvel erlendra aðila. Það er ákveðinn nýsköpunarhvati í því að fá inn nýja þekkingu, en svo kann líka að vera að þetta vinni að einhverju leyti gegn þeim. En reynslan af þessum niðurgreiðslum hingað til hefur verið góð og helsta gagnrýni sem fram hefur komið er vegna þaksins, að það væri full ástæða til að hækka það. Það gerum við hér svo sannarlega og er auðvitað hluti af stefnu ríkisstjórnarinnar um að efla nýsköpun. Það er nú svo ánægjulegt með þetta að ég hef ekki heyrt neinn mæla á móti þeim aðgerðum sem hér eru lagðar fram.

Viðskiptaráð Íslands kemur með mjög áhugaverða umsögn um málið og eins og ég segi eru allar umsagnirnar jákvæðar. Þar er farið ágætlega yfir það hvar Ísland stendur í dag varðandi útgjöld til rannsókna og þróunar og eru færð rök fyrir því að við séum neðar en önnur Norðurlönd. Lengi hefur stefnan verið sett á það, bæði hjá Íslandi og hjá öðrum Evrópuríkjum, að útgjöld til rannsókna og þróunar séu 3,5% af vergri landsframleiðslu. Því miður erum við einhvers staðar í kringum 2% í dag og eigum þar af leiðandi töluvert langt í land.

Ég tel, virðulegi forseti, að þetta sé ein af þeim aðgerðum sem gætu svo sannarlega komið okkur vel í þessum efnum og er raunverulegur hvati. Við heyrum það frá fyrirtækjunum. Við sjáum það í minnisblaðinu frá ráðuneytinu að fyrirtækin nýta sér þetta í raun. Það eru auðvitað bara allra stærstu fyrirtækin okkar sem þurfa á því að halda að þakinu sé aflétt. En það skiptir okkur líka mjög miklu máli að halda í þessi mikilvægu nýsköpunarfyrirtæki hér á landi því að samkeppnin um staðsetningu slíkra fyrirtækja er mikil og mörg önnur lönd bjóða sambærilega hvata og jafnvel þannig að þakið sé hærra eða hlutfall endurgreiðslu eitthvað meira. Þó ber á það að líta að það eru líka ákveðnar reglur innan Evrópusambandsins, eins og vísað er í í nefndarálitinu, um það hversu langt er gengið í ríkisstyrkjum. Það þarf auðvitað alltaf að vera innan ákveðinna ramma.

Að þessu sögðu þá held ég að við séum á mjög góðri vegferð hvað þessi mál varðar en ég tel líka að þeirri vegferð sé alls ekki lokið.