149. löggjafarþing — 45. fundur,  10. des. 2018.

tekjuskattur og stuðningur við nýsköpunarfyrirtæki.

301. mál
[23:29]
Horfa

Smári McCarthy (P):

Herra forseti. Í grunnatriðum vildi ég koma hingað og segja að ég er samþykkur þessu máli. Ég náði því miður ekki að vera viðstaddur afgreiðslu þess út úr nefnd en hefði tekið undir og verið með á nefndarálitinu, þó með fyrirvara eins og hv. þm. Oddný G. Harðardóttir, að vísu með tilliti til annarra þátta, fyrst og fremst að ég hef aðeins áhyggjur af þessu með ríkisaðstoðina. Þótt það sé líklega rétt að hún geti haldist með þeim hætti sem hefur verið er það samt ekki ljóst. Það vantar svolítið upp á að tryggja áframhald á þessu og það er nokkuð sem þarf að taka upp, kannski á vettvangi EES.

Síðan er líka spurning hvort reglurnar um ríkisaðstoð séu ekki of heftandi í ljósi reynslunnar. Sú gróusaga að ríkið eigi litla aðild að nýsköpun, eða eigi ekki að koma þar að, er í grunnatriðum röng ef maður horfir til sögunnar. Á móti eru auðvitað samkeppnissjónarmið bæði innan lands og á EES-svæðinu og jafnvel víðar sem þarf að horfa til. Ég held að það sé alveg ástæða til að reyna að finna einhvers konar nýtt jafnvægi á þessari nálgun í ríkisaðstoðarmálum almennt. Það þarf að vera mögulegt að styðja vel við nýsköpun.

Annað atriði er að þegar við horfum á þá nálgun að vera með þessar endurgreiðslur er mjög jákvætt og gott að við séum að tvöfalda hámarkið með þessum hætti, en á sama tíma er spurning hvort það séu hugsanlega einhverjar aðrar aðgerðir og jafnvel ódýrari sem gætu betur auðveldað starfsemi nýsköpunarfyrirtækja og þannig verið í rauninni skilvirkari. Þá horfi ég aðallega til Svíþjóðar og Sviss sem eru þau lönd sem hafa náð hvað mestum árangri. Í Svíþjóð eru ekki endurgreiðslur eins og við höfum á Íslandi þó að sú aðferð sé vissulega algeng. Svíar hafa þá aðallega notað aðrar aðferðir. Ég held að full ástæða sé til að við reynum að horfa svolítið vítt yfir sviðið, taka tillit til tæknilegra atriða og takmarkana sem gætu valdið fyrirtækjum í rannsóknum og þróun ýmiss konar erfiði, minnka skriffinnskubyrði sem dæmi, efla samkeppnissjóði og annað. Í öllu falli þurfum við að horfa á þennan málaflokk. Hann er gríðarlega mikilvægur og gæti hugsanlega orðið ein af lykilstoðum hagkerfis okkar. Það má færa rök fyrir því að hann sé það nú þegar. Þetta á a.m.k. eftir að stækka ef við hlúum vel að því. Ég myndi vilja að við færum yfir þennan málaflokk með almennari hætti, skoðuðum aðferðir sem eru notaðar í þeim löndum sem standa sig hvað best og þá horfi ég fyrst og fremst til Svíþjóðar en önnur lönd eru líka með áhugaverðar nálganir. Ef við gætum fetað í fótspor þeirra væri það mjög jákvætt.

Að öðru leyti er ég, eins og ég segi, sammála niðurstöðu nefndarinnar að þessu sinni. Ég held, eins og áður segir, að við ættum að horfa á þetta opnara í framtíðinni, kannski eftir áramót, en í millitíðinni er bara frábært að þetta komist á. Samþykkjum þetta endilega sem fyrst.