149. löggjafarþing — 45. fundur,  10. des. 2018.

tekjuskattur og stuðningur við nýsköpunarfyrirtæki.

301. mál
[23:33]
Horfa

Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir (S):

Virðulegi forseti. Ég fagna þessu frumvarpi og þakka hv. þingmanni fyrir að fara yfir nefndarálit efnahags- og viðskiptanefndar. Þetta mál og sér í lagi það að hækka þakið fyrir rannsóknir og þróun hefur verið stefna stjórnvalda í nokkur ár, það að auka stuðning við rannsóknir og tækniþróun nýsköpunarfyrirtækja á Íslandi. Hækkun þessara viðmiðunarfjárhæða er virkilega mikilvægt skref. Stuðningurinn og núgildandi kerfi hefur stuðlað að verulega arðbærum rannsóknum og þróun fyrirtækja á undanförnum árum. Sjálfstæðisflokkurinn sem hefur farið með þetta ráðuneyti hefur hækkað upphæðina úr 100 milljónum annars vegar og hins vegar 150 milljónum ef um er að ræða aðkeypta þjónustu. Hún var hækkuð árið 2016 í 300 milljónir annars vegar og hins vegar 450 milljónir og með þessu frumvarpi hér er enn á ný gengið miklu lengra og nú er tvöfölduð sú niðurgreiðsla sem fyrir var, í 600 milljónir annars vegar og hins vegar 900 milljónir.

Þó að hækkun viðmiðunarfjárhæða sé stuðningur sem bókfærður er sem útgjöld hjá ríkissjóði eru heildaráhrifin auðvitað það sem við þurfum að skoða. Af þessum aðgerðum eru þau gríðarlega jákvæð. Tilgangurinn er í grundvallaratriðum að stuðla að fjölbreyttara atvinnulífi, fjölgun starfa, aukinni hagsæld, auknum kaupmætti og áfram mætti telja og auðvitað til að fjölga stoðum íslensks atvinnulífs og þeirrar verðmætasköpunar sem við erum með í landinu. Það er eftirsóknarvert að auka fjárfestingar til rannsóknar og þróunar á Íslandi. Við höfum til að mynda verið eftirbátar annarra Norðurlanda í þeim efnum, en með þessu erum við enn frekar að efla hvatana til rannsóknar og þróunar. Þetta frumvarp er stór þáttur í að efla nýsköpun og hugvitsdrifinn iðnað á Íslandi.

Ég held að nýsköpunarstefnan okkar sem er verið að vinna núna þvert á flokka, þar fer fram gríðarlega mikilvæg og góð vinna, sé einmitt að skoða þetta í stærra samhengi, skoða allt sviðið, hvar við getum gert betur og hvernig við getum laðað til okkar fjárfestingu í störfum sem snúa að nýsköpun af því að þetta er auðvitað verðmætasköpun framtíðarinnar. Öll lönd eru að horfa til þess hvernig hægt sé að laða fram þessa fjárfestingu í störfum. Það er rosalega gaman að sjá framgang þessara mála hjá okkur síðustu ár.

Skattalegir hvatar hafa skapað hagstæðara rekstrarumhverfi. Úrræðið hefur nú þegar stuðlað að mikilli grósku í rannsóknum og þróun í fjölda fyrirtækja á undanförnum árum.

Ég hlakka til að starfa, sem ég geri sjálf, í nýsköpunarstefnunni og móta þá framtíðarsýn sem við viljum hafa í þessum málaflokki. Með því að draga hana fram stuðlum við ekki einungis að fjölbreyttara atvinnulífi, heldur ekki síst að miklu meiri hagsæld og styðjum við verðmætasköpun framtíðarinnar.