149. löggjafarþing — 45. fundur,  10. des. 2018.

tekjuskattur o.fl.

302. mál
[23:38]
Horfa

Frsm. efh.- og viðskn. (Óli Björn Kárason) (S):

Herra forseti. Ég mæli hér fyrir nefndaráliti með breytingartillögu um frumvarp til laga um breytingar á lögum um tekjuskatt og fleiri lögum (fyrirkomulag innheimtu), á þskj. 623.

Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund sérfræðinga frá fjármála- og efnahagsráðuneytinu, frá tollstjóra og ríkisskattstjóra.

Með frumvarpinu er lagt til að innheimta opinberra gjalda færist frá tollstjóra til ríkisskattstjóra. Með breytingunni er stefnt að aukinni skilvirkni og hagkvæmni í skattframkvæmd enda hagræði og einföldun fólgin í því að hafa álagningu og innheimtu opinberra gjalda á einni hendi.

Í umsögn ríkisskattstjóra um frumvarpið kemur fram að tækifæri til hagræðingar hljótist fyrirsjáanlega af tilfærslunni.

Gildistaka frumvarpsins miðast við 1. janúar 2019. Í samráði við ríkisskattstjóra og tollstjóra hefur ráðuneytið lagt til við nefndina að gerð verði breyting á gildistökuákvæði frumvarpsins þannig að lögin komi til framkvæmda 1. maí 2019 auk þess sem tekið verði fram í ákvæðinu að búnaður og viðeigandi bankareikningar tollstjóra færist til ríkisskattstjóra við breytinguna. Nefndin fellst á þetta og leggur til breytingu þar að lútandi auk samsvarandi breytingar á bráðabirgðaákvæði frumvarpsins.

Að framansögðu virtu leggur nefndin til breytingar á frumvarpinu sem fylgja með þessu nefndaráliti.

Smári McCarthy og Sigmundur Davíð Gunnlaugsson voru fjarverandi við afgreiðslu málsins. Ólafur Ísleifsson, áheyrnarfulltrúi í nefndinni, er samþykkur þessu áliti.

Undir álitið rita sá er hér stendur, Óli Björn Kárason, og hv. þingmenn Þorsteinn Víglundsson, Brynjar Níelsson, Bryndís Haraldsdóttir, Oddný G. Harðardóttir, Ólafur Þór Gunnarsson og Ásgerður K. Gylfadóttir.