149. löggjafarþing — 45. fundur,  10. des. 2018.

almannatryggingar.

12. mál
[23:49]
Horfa

Guðjón S. Brjánsson (Sf):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir snöfurmannlegan flutning á nefndaráliti um frumvarp til laga um breytingar á lögum um almannatryggingar. Ég er ekki sá lukkunnar pamfíll að vera flutningsmaður á þessu frumvarpi, en ég er samþykkur því að öllu leyti, enda er ég á nefndarálitinu sem fulltrúi í velferðarnefnd. Frumvarpið, þessi breyting, er skýrt og einfalt og um er að ræða réttlætis- og sanngirnismál.

Flutningsmenn telja að börnum einstæðra foreldra sé mismunað eftir því hvort báðir foreldrar eða annað sé á lífi. Með þessu séum við að vinna enn betur í átt að því að uppfylla sem best barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna og það er gott. Svo erum við að vinna gegn mismunun en í okkar ágætu stjórnarskrá — stjórnarskrá sem við viljum breyta og fá nýja — kemur fram í 65. gr. að mismunun sé ekki við hæfi, að við eigum að fylgja jafnræðisreglu.

Ég vona svo sannarlega, eins og hv. þm. Halla Signý Kristjánsdóttir gat um, að frumvarpið fái góða og skilningsríka umfjöllun í þinginu allt til loka og verði um síðir að lögum. En allt kostar þetta fé og við vonumst til þess að við finnum leiðir til að fjármagna þetta. Þetta eru ekki háar upphæðir í hinu mikla samhengi, en það eru 900 börn sem gætu haft það miklu betra ef við kæmum þessu í framkvæmd.