149. löggjafarþing — 46. fundur,  11. des. 2018.

störf þingsins.

[13:34]
Horfa

Ari Trausti Guðmundsson (Vg):

Herra forseti. Eins og þingheimur veit er kolefnisbinding hátt skrifuð. Hún fer auðvitað fram með því að stækka gróðurlendi, laga skemmt land og græða upp auðnir eða endurheimta votlendi, jafnvel með niðurdælingu, eins og nú er orðin staðreynd. Það er til vel reynd leið í þessu sem er svokallaður Kolviður þar sem fyrirtæki hafa getað jafnað kolefnisnýtingu sína með skógrækt. En í þessu öllu saman eru hlutverkin ólík, ríkið stendur straum af kostnaði við kolefnisbindingu, vissulega. Það styður með ýmsu móti við hana, hvetur og liðkar til fyrir henni.

Fyrirtæki, sveitarfélög, félagasamtök og einstaklingar bera hins vegar mesta þungann í heild ef við horfum til langs tíma. Varðandi fyrirtæki er þekkt að framlög eru ekki tekin út fyrir sviga. Það er engin sérstök skattaívilnun í gangi. Ég hef nú lagt fram til skrifstofu þingsins tillögu ásamt nokkrum meðflutningsmönnum um breytingu á lögum um tekjuskatt þannig að það er heimilt að nýta allt upp í 0,85% af tekjum í kolefnisbindingu í gróðri án þess að greiddur sé tekjuskattur af framlögunum. Eins og gefur augaleið geta fyrirtækin þá haft samvinnu við Kolvið og nýtt sér skógrækt eða t.d. tekið þátt í endurheimt votlendis með votlendissjóði sem er tiltölulega ungur. Stærðargráðan er ekki mikil, komnar eru 6–10 milljónir í votlendissjóð á þessum sjö mánuðum. Það er svipað hjá Kolviði á þessum tíma þannig að þó að þetta muni aukast með slíkri ívilnun verður það ekki stór byrði á ríkissjóði en gríðarlegur ávinningur í loftslagsmálum og þá í takt við markmið ríkisstjórnarinnar um kolefnishlutlaust Ísland fyrir 2040. Ég vona að hv. þingmenn fagni þessu tiltæki.