149. löggjafarþing — 46. fundur,  11. des. 2018.

störf þingsins.

[13:45]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P):

Virðulegi forseti. Í síðustu viku gagnrýndi ég frekar harðlega orðræðu sem birtist m.a. í ræðu hv. þm. Jóns Þórs Þorvaldssonar. Sem fyrr greinir var sú ræða smekkfull af rangfærslum um samkomulag sem Ísland skrifaði blessunarlega undir nýlega sem fjallar um hvernig þjóðir heimsins geti tekið höndum saman um eitt af stóru og stækkandi málefnum samtímans, farendur, þ.e. fólk sem flytur á milli landa af einni eða annarri ástæðu.

Í gær spurði sami hv. þingmaður hæstv. forsætisráðherra ágætra spurninga um téð samkomulag. Fyrst vil ég þakka hæstv. forsætisráðherra fyrir skýr svör en þau ættu að taka af öll tvímæli um samkomulagið og sefa allar áhyggjur sem nú heyrast svo víða hátt í samfélaginu. Þó langar mig líka til að þakka hv. þm. Jóni Þór Þorvaldssyni í þetta sinn fyrir mikilvægt atriði sem kom fram í fyrirspurn hans en það varðar umræðuna sjálfa. Það er hætt við því að ef málefni innflytjenda og sér í lagi flóttamanna og hælisleitenda eru ekki rædd opinskátt, upphátt og heiðarlega eigni öfgaöfl sér málaflokkinn. Það er sérstök hætta á því þegar honum er þvælt saman við ættjarðarást en úr því getur myndast heldur eitraður og öflugur kokteill sem hefur valdið ómældum skaða í mannlegu samfélagi í gegnum tíðina, ekki bara á fyrri hluta 20. aldar þótt þaðan fáum við frægustu dæmin. Fólk hefur alltaf verið hrætt við útlendinga, sér í lagi þegar það sér miklar samfélagsbreytingar samhliða mikilli fjölgun þeirra. Það er eitthvað sem við þurfum að geta rætt um opinskátt.

Nú er svo komið að ég fæ mikið af skilaboðum um téð samkomulag sem undantekningarlaust innihalda sambærilegar rangfærslur og birtust í téðri ræðu. Þótt mér sé skylt en þó óljúft á allan hátt að leiðrétta rangfærslurnar vil ég samt taka undir með hv. þingmanni um að veruleg hætta sé á því að ef fólk upplifir þöggun í umræðu um útlendingamál spili það í hendurnar á öfgaöflunum. Sú umræða snertir á alls kyns óþægilegum en mikilvægum málefnum eins og trúarbrögðum, hefðum, siðum, menningaratriðum og landslögum. Ég lýsi mig algjörlega reiðubúinn til að ræða þau mál opinskátt, heiðarlega og hreinskiptið, ítrekað og ítarlega. Manngreinarálitið er óþarft, staðreyndir og rök trompa bábiljur og rökvillur. Myrkur er ekkert nema skortur á ljósi. Ljósið sigrar myrkrið.