149. löggjafarþing — 46. fundur,  11. des. 2018.

störf þingsins.

[13:52]
Horfa

Bryndís Haraldsdóttir (S):

Virðulegur forseti. Mannréttindayfirlýsing Sameinuðu þjóðanna var 70 ára í gær. Staða mannréttindamála á Íslandi er mjög góð en því miður er það ekki svo á allt of mörgum stöðum í heiminum. Einn sá hópur sem hefur búið við mjög svo skert mannréttindi er flóttafólk og farendur. Sameinuðu þjóðirnar hafa á síðustu misserum unnið að yfirlýsingu um málefni flóttafólks og farenda. Markmiðið með þeim samþykktum er einmitt að tryggja mannréttindi þess fólks og bæta viðbrögð alþjóðasamfélagsins við fólksflutningum, bæði flóttafólks og farenda, í ljósi þess ört vaxandi fjölda fólks sem nú er á flótta og á faraldsfæti. Við hljótum öll að geta tekið undir mikilvægi þess. Í umræddum yfirlýsingum er lögð áhersla á sameiginlega ábyrgð alþjóðasamfélagsins í málefnum þessa fólks og undirstrikuð er skylda aðildarríkja til að vernda þá sem eru á flótta, styðja þau ríki sem hýsa mikinn fjölda flóttafólks, ásamt því að styðja þau ríki sem kljást við fólksflótta. Samþykktirnar eru ekki lagalega bindandi en þær skapa samvinnugrundvöll ríkja heimsins um framkvæmd þeirra skuldbindinga sem samþykktar voru í New York yfirlýsingunni. Einnig skipta þeir miklu máli fyrir framgang heimsmarkmiðanna.

Á Íslandi búum við við gott lagaumhverfi þegar kemur að mannréttindum, bæði þeim sem hér búa og þeirra sem hingað koma af mismunandi ástæðum. Þó að við getum eflaust bætt ýmislegt enn frekar í þeim efnum, þá eru þessar ágætu yfirlýsingar Sameinuðu þjóðanna ekki til þess fallnar að þröngva Íslandi í slíkt, heldur er það alltaf ákvörðun hins fullvalda ríkis Íslands að breyta slíku. Yfirlýsingin sem nú er samþykkt í Marrakess felur ekki í sér að Ísland þurfi að breyta lögum eða þeim aðferðum sem við höfum hingað til notast við.

Í mannréttindayfirlýsingu Sameinuðu þjóðanna segir: „Allir eru bornir frjálsir og jafnir öðrum að virðingu og réttindum. Allir eru gæddir skynsemi og samvisku, og ber að breyta bróðurlega hverjum við annan.“

Mannréttindi eru ekki afstæð. Þau eru algild. Með því að setja mannréttindi í forgang, frelsi og jafnrétti allra, erum við um leið að vinna að friði og stöðugleika í heiminum gagn. (Forseti hringir.) Þann slag verðum við alltaf að vera tilbúin að taka. (Gripið fram í: Heyr, heyr.)