149. löggjafarþing — 46. fundur,  11. des. 2018.

störf þingsins.

[14:01]
Horfa

Þorsteinn Víglundsson (V):

Herra forseti. Það er oft sem maður sér kastað til höndunum í asa hér í þinginu, sérstaklega rétt fyrir þingfrestun, en það er ekki oft sem maður sér vinnubrögð eins og nú virðist eiga að viðhafa varðandi samgönguáætlun. Hér eru að fæðast í þessum töluðu orðum það sem er ekki hægt að kalla annað en nýja samgönguáætlun, samgönguáætlun sem væri þá sennilega full ástæða til að senda aftur til umsagnar í ljósi þeirra umfangsmiklu breytinga sem þar eru á ferðinni. En nei, það á ekki að gerast, það á að afgreiða þetta í miklum flýti. Það er reyndar erfitt að sýna minni hlutanum hvað stendur nákvæmlega til því að það er ekki tilbúið. Það á samt að vera klárt til að ljúka umræðu og atkvæðagreiðslu um þetta mál fyrir helgi.

Hér er verið að tala um tugmilljarða framkvæmdir á ári. Það er ekki minnsta tilraun gerð til þess að meta t.d. þjóðhagsleg áhrif eins og vera ber, t.d. í takt við lög um opinber fjármál. Í raun og veru er afskaplega lítið um það að finna hvað nákvæmlega eigi að gera eða hvernig.

Mér sýnist staðan vera nokkurn veginn svona: Suðvesturhornið, höfuðborgarsvæðið, fær ekki neitt nema þeir borgi aukalega fyrir það með veggjöldum. Þau veggjöld á jafnframt að nota til að fjármagna framkvæmdir annars staðar á landinu.

Þetta er flutt af sama hópi og lagðist þversum gegn hugmyndum um að hækka kolefnisgjöld um 1.200 millj. kr. á ári og hér er skyndilega kominn listi upp á 75 milljarða sem á að fjármagna á næstu árum með veggjöldum.

Ég held að það sé um að lágmarki fertugföld sú hækkun sem stefnt var að með kolefnisgjöldunum á sínum tíma. Tvískinnungurinn er nú ansi myndarlegur í þessu. Þetta eru auðvitað ekki boðleg vinnubrögð. Þetta er rassvasabókhald um tugmilljarða framkvæmdir. Þingið á að sýna sjálfu sér þá virðingu að taka sé örlítið betri tíma í að móta þessar hugmyndir til enda. (Gripið fram í: Heyr, heyr.)