149. löggjafarþing — 46. fundur,  11. des. 2018.

störf þingsins.

[14:04]
Horfa

Jón Þór Ólafsson (P):

Herra forseti. Mig langar að ræða um samgönguáætlunina sem nú er verið að breyta í eiginlega nýja samgönguáætlun með því að þetta er þingsályktunartillaga sem er búin að vera í vinnslu. 71 aðili, bæjarfélög og sveitarfélög um allt landið, er búinn að senda inn athugasemdir, allir aðilar máls, og í nefndaráliti er alveg á lokametrunum bætt inn nýrri þingsályktunartillögu um hvernig gjaldtökunni skuli háttað.

Ætla menn þá ekki að fara hringinn aftur og spyrja til að gera það faglega: Hvað finnst mönnum um þessar gjaldtökuhugmyndir? Það er það sem meiri hlutinn virðist ekki ætla að gera. Þá skulum við horfa á hvernig þetta gæti spilast. Ef meiri hlutinn ákveður að gera það ekki vita allir að þetta er gríðarlega ófaglega unnið og það getur enginn sætt sig við svona vinnubrögð. Þjóðin mun ekki sætta sig við svona vinnubrögð.

En meiri hlutinn gæti gert það með fimm, þvingað málið út úr nefndinni. Þá situr það hjá forseta Alþingis sem hefur dagskrárvaldið. Ef hann setur það á dagskrá, svona illa unnið í svona mikilli ósátt við þjóðina sem er ekki hrifin af þessum veggjöldum, er það bara stríðshanski inn á þingið á lokametrum. Hvað á minni hlutann að gera annað en að segja: Þetta getum við ekki leyft? Hvað höfum við þá? Við höfum ekkert annað en heimild okkar til að tala í málinu. Auðvitað þurfum við að tala í málinu og bíða umsagna frá sveitarfélögum, hagsmunaaðilum og fólkinu í landinu um þetta mál. Auðvitað þurfum við að bíða og tala þangað til við fáum þær upplýsingar. Við værum aum ef við hleyptum þessari þingsályktunartillögu inni í þingsályktunartillögu á lokametrum án þess að landsmenn fái að segja sitt og þeir sem málið varðar. Það er grundvallarlýðræðiselement að allir eiga rétt á að koma að ákvörðun sem þá varðar og það er verið að þverbrjóta hér ef menn ætla að halda í þessa göngu. (Gripið fram í: Heyr, heyr.)