149. löggjafarþing — 46. fundur,  11. des. 2018.

veiðigjald.

144. mál
[14:32]
Horfa

Þorsteinn Víglundsson (V) (um atkvæðagreiðslu):

Herra forseti. Ríkisstjórnin er að ná í gegn helsta baráttumáli sínu. Hér fellir hún grímuna. Ríkisstjórnin var gerð afturreka með lækkun veiðigjalda í vor en lagði þau fram aftur nú í haust og keyrir þau í gegn í bullandi pólitískum ágreiningi. Ekki er minnsta tilraun gerð til að ná einhverri sátt um þetta mál.

Hér sést hin pólitíska forgangsröðun ríkisstjórnarflokkanna. Hér eru veiðigjöld lækkuð um 4 milljarða á sama tíma og ekki er unnt að fjármagna kaupmáttaraukningu eldri borgara, á sama tíma og ekki er heldur unnt að fjármagna vegakerfið með neinum sóma, eins og við sjáum í umræðu í þinginu í dag, á meðan skorið var niður milli umræðna í fjárlagafrumvarpi mjög víða í velferðarkerfinu. Þetta er grímulaus sérhagsmunagæsla þessara ríkisstjórnarflokka.

Ég segi nei við þessu máli.