149. löggjafarþing — 46. fundur,  11. des. 2018.

veiðigjald.

144. mál
[14:37]
Horfa

Inga Sæland (Flf) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegi forseti. Hér er talað um afkomutengingu útgerðarinnar. Auðvitað verðum við að huga vel að henni en staðreyndin er sú að á árinu 2018 hefur krónan fallið gríðarlega. Við erum að horfa upp á 20% í sambandi við útflutning, þ.e. 20% aukning og viðbótargróði útgerðarinnar af útflutningi. Þannig að ég segi: Er ekki ástæða til að bíða og doka við og sjá til hvert við erum að fara, hvort við erum að koma eða fara?

Það er búið að greiða út sjálfsagt hátt í 80 milljarða í hreinan arð síðan 2010. Það er að meðaltali um 9 milljarðar á ári í arðgreiðslur út úr sjávarútveginum. Það er verið að lækka veiðgjöldin beint fyrir framan nefið á okkur um 4,3 milljarða, hvað sem þeir segja. Það er staðreynd að greiddir voru um 11 milljarðar inn í ríkissjóð í fyrra af sjávarauðlindinni. Núna verða þeir 7. Við gætum gert ýmislegt, virðulegi forseti, með þessa 4 milljarða kr. ef ríkisstjórnin liti kannski pínulítið í baksýnisspegilinn og forgangsraðaði einhvern tímann í þágu þeirra sem mest þurfa á aðstoð að halda.